141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það ánægjulega við fæðingarorlofið, eins og hv. þingmaður vakti athygli á, er að samstaða hefur verið um það, þ.e. þverpólitísk samstaða um hvernig það ætti að vera. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað finna allir fyrir því að dregið var úr greiðslum eftir hrunið, þó að ég deili því nú ekki að það hafi verið komið að hættumörkum. Menn reyndu að halda kerfinu sem slíku. Það er alrangt að þetta sé eitthvert kosningamál, að koma með það inn núna. Það er einfaldlega þannig að við höfum verið að undirbúa og búa í haginn í ríkisfjármálum þannig að það væri hægt. Við höfum alltaf stefnt að því að bæta aftur í um leið og við mögulega gætum innan þess ramma sem við höfðum sett okkur.

Það er mjög forvitnilegt að skoða nokkrar skýrslur sem hafa komið um það hvernig fæðingarorlofið hefur þróast við þessar aðstæður. Það er nefnilega ekki alveg einfalt samhengi á milli þess að þeir sem eru tekjuhærri hafi vegna þakanna, sem hægt er að kalla eða hámarksgreiðslnanna, hætt að taka fæðingarorlof. Það kemur nefnilega í ljós að margir af körlunum halda áfram að taka fæðingarorlof jafnvel þó að skerðingarnar séu.

Hins vegar hefur komið í ljós að margir af þeim sem eru á lægstu töxtunum hafa ekki haft efni á því að taka fæðingarorlof vegna þess að við skertum úr 80% niður í 75%. Og jafnvel það bara að vera með 80% af lágum tekjum þá fresti menn því að taka fæðingarorlof eða jafnvel sleppi því til að tryggja afkomu heimilanna. Það er því ekkert sem bendir til að það sé ekki skynsamlegasta leiðin í fyrsta lagi að samræma þetta í 80% og síðan að hækka í miðjuhópunum til að tryggja að fleiri geti komist af. Og ég held að það sé betra líka til þess að tengja saman fæðingarorlofið og dagvistarkerfið eða leikskólakerfið að við reynum að lengja fæðingarorlofið, það er mikið hagsmunamál fyrir þennan hóp líka.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er auðvitað jafnréttistæki og við þurfum að hugsa um það líka sem slíkt. En við þróum þetta vonandi saman og ég veit að nefndin tekur það til umræðu því að eins og áður þegar þetta var rætt á sínum tíma og þegar þessu hefur verið breytt hafa auðvitað verið ýmis álitamál um hvernig eigi að standa að því. En þessi leið var valin.