141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:54]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er mikið ánægjumál að það sé komið á dagskrá Alþingis og nú undir jákvæðum formerkjum liggja fyrir breytingar sem snúa annars vegar að lengd fæðingarorlofs og hins vegar að hækkun greiðslna í orlofi. Við þekkjum mætavel þær afleiðingar niðurskurðaraðgerða sem framkvæmdar voru á framlagi til foreldra í fæðingarorlofi árið 2009, úr 537 þús. kr. hámarki niður í 300 þús. kr. og hlutfalli af launum úr 80% niður í 75%. Í kjölfar þeirrar lagasetningar hefur verulega dregið úr þátttöku feðra í fæðingarorlofi. Það eitt og sér gengur gegn upphaflegu markmiði laganna.

Sú breyting hefur haft tvenns konar áhrif, annars vegar á fækkun fjölda þeirra feðra sem taka orlofið og svo hins vegar á fækkun daga þeirra feðra sem taka orlof, þ.e. á árum 2009, 2010 og 2011 og svo væntanlega 2012, en það á eftir að koma fram.

Í athugasemdunum við frumvarpið má skilja að sú lækkun hafi í raun ekki haft áhrif á tekjuhærri feður heldur liggi þar önnur ástæða að baki. Ekki eru nefndar neinar tölulegar staðreyndir því til stuðnings þannig að það væri áhugavert að fá að heyra frá ráðherra ef hann er með tölur um hversu stórt hlutfall er að ræða. Eru það tveir eða þrír sem eru með tekjur upp á 400 þús. kr. eða meira, eru það 20%? Hversu hátt er hlutfallið? Það eru engin rök að segja að þetta hafi ekki áhrif á tekjuhæstu feðurna ef það eru engar tölulegar staðreyndir þar á bak við.

Mæðrum sem fara í fæðingarorlof hefur ekki fækkað né fjölda þeirra daga sem þær taka. Það má auðvitað áætla eins og með feðurna, eins og hæstv. ráðherra kom inn á geta verið margar ástæður sem skýra þær breytingar. Það sem við horfum á er að mæðurnar taka áfram orlof þrátt fyrir breytingarnar. Við á Íslandi þekkjum þátttöku kvenna á atvinnumarkaði, vinnumarkaðurinn er með eindæmum á heimsvísu. Því má ætla að niðurskurður á fæðingarorlofinu hafi í rauninni líka haft neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaðnum því þær hafa tekið fæðingarorlof en feðurnir síður. Það breytir miklu og ég vil leggja áherslu á mjög mikla samningsstöðu kvenna á vinnumarkaði. Það hefur lítið verið minnst á það.

Hin augljósa neikvæða afleiðing er svo að nýfætt barn nýtur ekki eins mikilla samvista við föður og það hefði gert ef ekki hefði komið til þeirra breytinga sem ríkisstjórnin framkvæmdi árið 2008.

Ég geri mér grein fyrir hversu erfitt getur verið fyrir vinnuveitendur að missa starfsmenn í burtu í þann tíma sem fæðingarorlof tekur. Ef við lítum á hlutina í heildarsamhengi hlýtur að vera betra fyrir íslenska þjóð að börn og foreldrar njóti samvista á þessum mjög svo dýrmæta tíma. Þrátt fyrir að við höfum séð alvarlegar breytingar á því hvernig foreldrar taka orlofið, þ.e. að feður taki síður orlof en mæður, vonast ég til að það verði áfram viðurkennt að bæði mæður og feður taki foreldraorlof og að á vinnumarkaðnum sé ekki sett pressa á fólk að geri það ekki.

Það liggur fyrir að fæðingarorlof er kostnaðarsamt fyrir íslenskt þjóðfélag þegar litið er á þá upphæð sem rennur í sjóðinn á hverju ári. Í þessu frumvarpi eru lögð til aukin framlög í sjóðinn með tilkomu hækkunar á framlagi foreldra í orlofi, þ.e. hækkun launanna sem foreldrarnir fá í orlofinu og lengingu á orlofinu á komandi árum. Lagt er til að það fari úr þeim níu mánuðum sem það er í dag yfir í tólf mánuði árið 2016. Þá verði settir í það 11 milljarðar kr. sem við vitum að er gríðarlega há upphæð en við getum líka sett hana í samhengi við ýmislegt sem er í gangi þessa dagana. Þá er auðvitað auðvelt að nefna það sem hæst ber á góma nú um mundir og það eru þeir 13 milljarðar sem áætlaðir eru að þurfi að setja inn í Íbúðalánasjóð, maður getur kannski sagt vegna rangra ákvarðana og ónógrar fyrirhyggju þar á bæ.

Ég fagna því að núverandi ríkisstjórn leggi áherslu á, eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði upphaflega þegar hann kom fæðingarorlofinu á, að foreldrar eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að taka fæðingarorlof og að sjálfstæður réttur föður og móður sé ekki framseljanlegur milli foreldra. Það er grundvallaratriði.

Í frumvarpinu er lagt til að foreldrarnir eigi jafnlangan sjálfstæðan rétt sem mun á næstu árum fara úr þremur mánuðum, eins og það er í dag á hvort foreldri og svo þrír mánuðir til skiptanna, í fjóra mánuði á hvort foreldri árið 2016. Svo munu foreldrar eiga fjóra mánuði til skiptanna, alls 12 mánuði, eins og ég kom inn á áðan.

Mig langar í því samhengi, þar sem við erum að ræða um fæðingarorlof, að koma örstutt inn á stöðu kvenna á landsbyggðinni sem þurfa nú að fara um langan veg til að eignast börn sín. Við heyrum af fréttum reglulega þar sem konur fæða börn í sjúkrabílum á leið á spítala. Ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir hversu erfitt það er og mikið álag að þurfa að fara þá leið. Til dæmis má nefna að konur á Patreksfirði þurfa að fara rúmlega 400 kílómetra til að ala börn sín. Þá er ekki verið að tala um þann tíma sem margar fjölskyldur leggja á sig, bæði mæður, feður og fjölskyldur, sem þurfa að koma hingað á höfuðborgarsvæðið, eða hvert sem þarf að fara, löngu áður en barnið fæðist til að lenda ekki í þeirri aðstöðu eignast börnin í sjúkrabílum eða einhvers staðar annars staðar.

Niðurskurður á þeirri grundvallarþjónustu í heilbrigðiskerfinu er mjög alvarlegur, svo ekki sé minnst á áhættuna sem fylgir þeirri aðferðafræði. Álagið á fæðingargangi Landspítalans hefur aukist til jafns við niðurskurðinn á landsbyggðinni. Þar standa ljósmæður, læknar og hjúkrunarfræðingar vaktina, oft á tíðum mun lengur vegna aukins álags. Ég vil sjá því breytt og við eigum að forgangsraða þeim málaflokki í hag.

Mig langar um leið að fagna framtaki Lífs styrktarfélags, sem hefur þann tilgang að styrkja kvennadeild Landspítalans, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu í fæðingu og sængurlegu. Það ber að þakka. Það er lofsvert þegar einkaaðilar og aðilar mynda samtök um að bæta úr þegar ríkið bregst.

Við höfum rætt um lög um fæðingarorlof. Það eru jákvæðar breytingar í farvatninu. Ég vil fagna þeim. Það er gott að sjá að það eru jákvæð mál í gangi í þinginu og það ber að þakka.