141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[14:18]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu um fæðingar- og foreldraorlof, lengingu þess og hækkun á tekjumörkum. Ég kem hingað aðeins í lokin vegna þess að mig langar að upplýsa, og það kom fram í umræðunni, að nákvæmlega hefur verið fylgst með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á fæðingarorlofinu og áhrifum þeirra. Þegar hefur verið gefin út skýrsla, sem borist hefur þinginu og verið lögð fram, um þau áhrif, að auki síðan svar við fyrirspurn, ef ég fer rétt með. Það er í raun athyglisvert að þótt við séum að tala um að færri feður taki fæðingarorlof erum við ekki að tala um 10% heldur örfá prósent og til þess að gera litla fækkun þannig að það er alls ekki hægt að segja að búið sé að eyðileggja jafnréttisvinkilinn í frumvarpinu eða eyðileggja fæðingarorlofið á neinn hátt. Það hafa allir gengið í gegnum þrengingar eftir þau áföll sem dundu yfir íslenskt samfélag árið 2008 og fæðingarorlofið fór ekki varhluta af því.

Það kom réttilega fram í umræðunni hér hjá hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur að hluti af því sem fæðingarorlofið gerir, og skiptir miklu máli til að jafnrétti sé á milli kynjanna, er að jafna stöðu kynjanna líka varðandi þátttöku á vinnumarkaði og samkeppnishæfni hvað varðar stöðuhækkanir og annað. Þess vegna skiptir miklu máli að við reynum að halda kerfinu þannig að konur eigi jafna möguleika og karlmenn að taka þátt í atvinnulífinu og að ekki verði sá munur þar á að vegna fæðingar fari bara annað kynið af vinnumarkaðnum.

Ég held að við eigum að reyna að halda þeirri stöðu sem hefur einkennt íslenskt samfélag, eins og hér kom réttilega fram, að þátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur verið með því hæsta í heiminum, sennilega sú langhæsta. Það hefur ekki breyst þó að þátttakan hafi almennt dregist saman á vinnumarkaðnum og mikilvægt er að viðhalda því.

Þá var í umræðunni nefnd staða kvenna á landsbyggðinni. Við verðum auðvitað að fylgjast mjög vel með hver þjónustan er um byggðir landsins. Nefndir voru staðir eins og Patreksfjörður. Við getum nefnt Húsavík og fleiri staði þar sem fæðingar hafa lagst af, þ.e. ekki er lengur boðið upp á þær á þeim heilbrigðisstofnunum sem þar eru. Raunar varð sú breyting töluvert fyrir hrun og tengist ekki því sem hér er til umræðu.

Það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í umræðunni, að auðvitað verðum við að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif fæðingarorlofið hefur. Þar er tvennt undir, það sem hann kallaði jafnréttisvinkil og hins vegar barnið. Auðvitað er það barnið sem er aðalatriðið, þ.e. hvernig við búum að því. Það er verið að lengja fæðingarorlofið til þess að tryggja að barnið fái sem besta aðhlynningu á sínum fyrstu mánuðum.

Það kom líka fram hér í umræðunni og skiptir miklu máli þegar verið er að ræða um fjármögnun verkefnisins að Fæðingarorlofssjóður stóð ekki undir sér og var í raun rekinn með halla fram á þetta ár og er núna byrjaður að mynda sjóð og því þarf ekki að gera sérstaklega ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu umfram það að sjóðurinn haldi tekjum sínum. Það þarf auðvitað að tryggja honum tekjur til að tryggja lenginguna og hækkunina á tekjumörkunum fyrir árin þar á eftir.

Kærar þakkir fyrir umræðuna. Þetta fer auðvitað í umfjöllun hjá hv. velferðarnefnd. Það skiptir auðvitað máli að afgreiða frumvarpið sem fyrst þannig að hægt sé að vinna eftir þessum lögum miðað við að breytingar á fæðingarorlofinu og hækkunin komi til framkvæmda frá 1. janúar.