141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Hér er í stuttu máli verið að leggja til hækkun á gjaldinu úr 0,03% í 0,0343%. Það sem vekur athygli mína er greinargerð sem fylgir með frumvarpinu, eins og hæstv. ráðherra nefndi, þar sem segir að tæplega 250 millj. kr. séu til þess að vega upp á móti rekstrarhalla fyrri ára. Það er verið að hækka gjaldið til þess. Það kemur líka fram í frumvarpinu og kom fram í máli hæstv. ráðherra að umboðsmaður skuldara gefur ráðuneytinu skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað fyrir hvert ár, eins og fyrir árið 2013.

Þegar umboðsmaður skuldara gerði grein fyrir rekstrarkostnaði sjóðsins á árinu 2012 var gert ráð fyrir því að dregið yrði úr útgjöldum í rekstri. Þetta er að mínu viti algjör staðfesting á þeim lausatökum sem eru á ríkisfjármálunum, þ.e. stofnanir fara ekkert eftir fjárlögum. Svo er verið að hækka gjaldstofninn fyrir árið 2013 til þess að vega upp á móti rekstrarhalla fyrri ára. Það er náttúrlega ólíðandi að gera þetta. Það geta ekki allar stofnanir gert þetta. Það væri til að mynda hægt að setja þetta í samhengi við Landspítalann. Ef Landspítalinn hefði bara tekið ákvörðun um að gera stofnanasamninga við hjúkrunarfræðinga eða fara í önnur aukin útgjöld þá væri hægt að setja það í þetta samhengi. Það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á svona vinnubrögð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar: Hefur hann upplýsingar um það hvað í raun og veru opinberu lífeyrissjóðirnir greiða háa fjárhæð af þessum tæplega 1.200 milljónum og hins vegar Íbúðalánasjóður?