141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræddum fyrr í dag um greiðslur til Fjármálaeftirlitsins. Þar fylgja miklar upplýsingar með — ársreikningar, áætlanir, hvað einstakir aðilar greiða og annað slíkt og menn gátu glöggvað sig á því hvað var að gerast. Ekkert fylgir hér með. Við vitum ekki neitt. Það á bara að hækka gjöldin. Eins og hér kom fram virðast menn hafa farið á svig við eigin áætlanir. Það eru gerðar áætlanir fyrir árið 2012, þetta sama fólk gerir áætlanir fyrir 2012. Síðan kemur það rúmu ári síðar og í ljós kemur að 240 milljónir vantar inn í þessa áætlun, sem þau áætluðu þá rangt og fóru ekki að fjárlögum. Maður spyr sig: Er þetta í fjáraukalögum eða hvar er þetta geymt? Þetta ætti að sjálfsögðu að vera í fjáraukalögum. En það er verra þar sem þetta er í raun ekki fjárlög ríkisins heldur er þetta lagt á aðra aðila með lögum, eins og lífeyrissjóði. Almennu lífeyrissjóðirnir munu þurfa að skerða lífeyri enn meira út af þessu, á meðan opinberu sjóðirnir sleppa. Iðgjaldið verður hækkað þar eða þar munu menn einhvern tímann horfast í augu við að 57 milljarða vanti inn í þann sjóð, bara A-deildina. Bara til að setja þetta í samhengi.

Mig langar til að vita, frú forseti, og kannski spyr ég að því formlega síðar: Hvað kostar hvert mál hjá umboðsmanni skuldara? Hvað kostar það eiginlega? Hvað eru þetta mörg mál? Við erum búin að setja í þetta milljarða í kostnað sem við leggjum á hin ýmsu fyrirtæki í landinu. Hvað kostar hvert mál? Og hvað er það í hlutfalli við þá lausn sem viðkomandi fær? Getur verið að það sé bara — ég veit það ekki, ég bara spyr, ef hæstv. ráðherra skyldi nú vita eitthvað um þetta þá kannski gaukar hann því að okkur.