141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:37]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að full ástæða sé til að þau gögn sem hv. þingmaður er að tala um hér — sem eru ítarlegar upplýsingar um hvernig mál hafa gengið, kostnaður, í hvað sá kostnaður fer og sú skýrsla sem vitnað er í — verði lögð fram í velferðarnefnd og komi þar með inn í þingið. Ég held að það sé sjálfsagt og eðlilegt og það er alveg hárrétt hjá þingmanni að hugsanlegt hefði verið að gefa þetta allt í einni skýrslu með fjárveitingabeiðninni.

Það sem skiptir máli hér er að menn sameinuðust um þetta embætti á sínum tíma. Allir þeir aðilar sem þarna veita útlán sameinast um ákveðið ferli til að taka á lánavandanum. Þar með fallast þeir á að þeir muni fjármagna það embætti. Þannig var þetta gert á sínum tíma og þannig hefur þetta verið unnið. Því eru engar ákvarðanir teknar þvert á vilja þessara aðila, þeir hafa aðgang að þessari nefnd sem ég gat um, nefnd sem fer yfir það hvernig fjárveitingar eru, og gera tillögu um þá prósentu sem hér kemur fram.

Varðandi það hvað hvert mál kostar get ég upplýst hv. þingmann um að við höfum rætt þetta á þessum nótum, en slíkur útreikningur er ekki til. Auðvitað er ástæða til að fara yfir reynsluna af þessu embætti. Það er út af fyrir sig töluverð saga á bak við það. Upp úr 1990 fóru fyrst að koma tillögur um að taka upp greiðsluaðlögun og setja á fót kerfi sem tæki heildstætt á skuldavanda. Það tókst því miður aldrei. Það tókst ekki fyrr en eftir hrun.

Þegar Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru í ríkisstjórn var mikil deila um það hvernig ætti að gera þetta, hvort gera ætti þetta á félagslegum nótum eða lagalegum. Ofan á varð í byrjun að gera þetta á lagalegum nótum þannig að ekki tókst að gera þetta mjög virkt. Síðan var ákveðið að stofna umrætt embætti með þessum hætti. Það verður að segjast að álagið þar hefur verið slíkt að langan tíma hefur tekið að leysa mál, enda mörg þessara mála margþætt og flókin. (Forseti hringir.) Vonandi erum við að komast út úr því svo að greiðslur af þessari stærðargráðu verði ekki til langs tíma.