141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að finna einfalda lausn á málum og það er hægt að finna á þeim flókna lausn. Það er hægt að gera ferla einfalda og það er hægt að gera þá flókna. Ég lagði til, þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, að umsóknarferlið yrði gert einfaldara, að menn gæfu bara upp kennitöluna sína því að allar hinar upplýsingarnar lægju fyrir í hinum ýmsu kerfum hins opinbera. Allar upplýsingarnar lágu fyrir. Nei, menn vildu heldur að sótt yrði um og að fólk þvældist út og suður til að ná í pappíra til að stimpla á o.s.frv. Ferlið var gert flókið. Nú er það spurningin: Hefur umboðsmaður skuldara unnið með rökréttum og einföldum hætti að því að leysa vandamálin eða er farin einhver fjallabaksleið? Kostnaðurinn gæti legið í því hve þetta er þungt og hægvirkt og allt slíkt, því maður heyrir mikið kvartað undan því að þetta sé mjög hægvirkt.

Það er alveg á hreinu að við sem löggjafi getum ekki bara hækkað gjaldið og hækkað það eftir því sem reksturinn krefst. Það er bara sagt: Vantar 200 milljónir þarna og vantar þetta og þá bara hækkum við gjaldið. Við verðum að vera gagnrýnin á hvernig gjaldinu er varið og í hvaða samhengi það stendur miðað við þá þjónustu sem verið er að veita og þá lausn sem einstaklingarnir fá. Ég hef grun um að þetta sé mjög hátt gjald á hverja umsókn, hundruð þúsunda og jafnvel hálf eða heil milljón. Ég bíð spenntur eftir því að fá einhverjar upplýsingar sem ég vona að verði í þingskjali, ekki bara í velferðarnefnd því að ég á ekki sæti í henni. Hér situr formaður velferðarnefndar og ég vil gjarnan að hann gauki þessu að mér þegar það berst til nefndarinnar.