141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:41]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að hv. formaður velferðarnefndar hlustar og lætur þá vonandi fylgja með nefndaráliti þau skjöl sem liggja á bak við, þ.e. frekari upplýsingar.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að á sínum tíma sátum við saman í tryggingamálanefnd þar sem rætt var um þessi úrræði. Hv. þingmaður kom þá með þá tillögu sem hann nefnir hér. Niðurstaðan varð sú að fara ekki þá leið af mörgum og ólíkum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér.

Eitt af því sem kostað hefur verulega mikið í allri málsmeðferðinni er að í lagafrumvörpunum á sínum tíma, sem gildir í raun enn, eru ótal kæruleiðir. Jafnvel aðilar sem eiga til þess að gera lítilla hagsmuna að gæta geta, þegar komið er að samningum, óskað eftir fresti. Það tekur langan tíma, það þarf að safna viðbótargögnum. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að ferlið er frekar þungt. Þarna, eins og svo oft áður, hafa menn búið þannig um hnútana, oft vegna krafna frá ákveðnum aðilum, að haldið er í eignarréttinn býsna lengi. Menn hanga þá á skuldum sínum, þ.e. kröfum sínum, út í það óendanlega, langt umfram það sem skynsamlegt er og enginn hagnast á því að vera að velta þessu í kerfinu í staðinn fyrir að hreinsa betur út.

Varðandi kostnaðinn lá það fyrir þegar farið var út í þetta að þegar að samningum kæmi, þegar búið væri að undirbúa öll gögn, mætti gera samninga við lögfræðinga sem tækju að sér að ganga frá viðkomandi máli. Þá var ákveðin föst upphæð sem var um 200 þús. kr. á hvert mál þannig að það liggur alveg fyrir. En aftur á móti varð kostnaður við undirbúning og síðan hefur reynslan orðið sú að þurft hefur að fara ítarlega yfir málin aftur til þess að fá þau ekki í hausinn. Það er líka þannig búið um málin að ef viðkomandi aðili vill fara með málið áfram til dómstóla er það tilbúið í það. Þetta er ferlið sem var ákveðið af hv. Alþingi.

Það er alveg rétt að ég held að til lengri tíma eigum við að fara yfir þessi mál öll að nýju og höfum svo sem verið að endurskoða þau jafnóðum hér í þinginu. En (Forseti hringir.) full ástæða er til að gera það á hverjum tíma til að tryggja að þetta verði með sem skilvirkustum hætti.