141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

498. mál
[14:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að við fáum frumvarpið samþykkt fyrir áramótin þannig að umboðsmaður skuldara fái þá fjármuni sem hann þarf til þess að reka sig á næsta ári. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson velti því fyrir sér í sinni ágætu ræðu hvort þarna hefði orðið einhver bylting frá því í september í haust. Málið er að það er nánast gengið frá fjárlögum að vori. Þá voru menn með áætlanir á borðinu, en stóðu svo frammi fyrir því vali að hausti hvort þeir ættu að stoppa 400 samninga eða halda áfram. Niðurstaðan varð sú að halda áfram og að leysa þetta með fjáraukalögum eða með þessari ákvörðun hér, sem er sú að taka það í gegnum sameiginlegt gjald fyrir árið 2013 og uppgjör á þessu ári.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að til stóð að umsvif umboðsmanns mundu minnka. Þess ber að geta og er kannski það mikilvægasta í sambandi við umboðsmann skuldara að þar hefur fjölgað gríðarlega ráðgjafasamtölum og leiðbeiningum til fólks. Það má líka geta þess, af því hv. þingmaður var tíðrætt um gengistryggðu lánin, að umboðsmaður skuldara gerðist aðili að því að vinna úr þeim málum sem óháður aðili og raunar hagsmunagæsluaðili fyrir neytendur. Það var auðvitað mjög mikil viðbótarvinna. Það hægði líka á öllum uppgjörsmálum. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg, og breytingarnar á þeim höfðu áhrif á nánast alla ferla í sambandi við skuldaúrlausnir þar sem voru inni bílalán eða bankalán. Það þurfti að endurreikna og vinna upp á nýtt hvernig hægt var að hjálpa fólki í greiðsluaðlögun þar sem stilltar eru saman tekjur og útgjöld. Þannig að allt er þetta samhangandi.

Það má í sjálfu sér segja að það sé ágætt og ánægjulegt að hv. þingmaður styður stefnu ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum, þ.e. að vinna með málin þannig að reynt sé að leita bestu lausna á hverjum tíma. Þegar inn koma lausnir eins og með gengistryggðu lánin verða gríðarlegar breytingar, það létti m.a. mjög á greiðslubyrði vegna bílalána sem var mjög þungur baggi á mörgum. Slíkt hefur áhrif á hvaða úrræðum er beitt.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ákveðnir hlutir hafa alls ekki gengið eftir. Þegar farið var í 110%-leiðina á sínum tíma árið 2010, og um það var sátt af öllum flokkum, var fyrst og fremst verið að taka á skuldahlutanum og reyna að koma skuldunum niður í 110% þannig að innan skamms tíma gætu menn átt viðskipti með eignir sínar.

Það kom auðvitað í ljós við framkvæmdina — ég segi auðvitað því að það mátti kannski sjá það fyrir — að ákveðnir hópar urðu út undan hvað þetta varðar. Það er ekki búið að leysa það mál enn þá, það voru þeir sem voru með lánsveð þar sem lánin hvíldu alls ekkert á viðkomandi eign og var ekki nákvæmlega fært í skattskýrslum eða neins staðar hvar þau voru. Eftir sem áður eru þeir einstaklingar sem eiga íbúðina að borga af þessu með veðlánum hjá foreldrum sínum. Í öðru lagi voru ábyrgðarmenn líka mjög margir og það er eins með þá. Það hefur verið tekið á þessu hjá bönkum í sumum tilfellum þar sem um er að ræða sama aðila sem á lánið og á lánsveðið.

Það hefur verið talað um ýmsar lausnir og margir stungið upp á að fara í almennar leiðréttingar eða eitthvað slíkt en það hefur alltaf strandað á því að 50% af húsnæðislánastokknum er hjá Íbúðalánasjóði. Allar fyrirgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði koma beint úr ríkissjóði. Ef menn hefðu farið í 20% niðurfellingu á sínum tíma hefði það kostað 140 milljarða beint út úr ríkissjóði. Við vissum auðvitað líka að það mundi ekki gagnast nema að hluta til vegna þess að margir af þeim sem nú eru hjá umboðsmanni skuldara eru í miklu fjölþættari vanda. Það er ekki bara skuldavandi vegna húsnæðis heldur vegna ýmissa annarra skulda. Það hefur átt sér stað viðamikil hreinsun á þessu sviði, ekki bara vegna gengistryggðu lánanna — það verður líka að taka inn í að þau stökkbreyttust náttúrlega um meira en 50, 60% þegar gengið hrundi. Þegar upp er staðið verður forvitnilegt að skoða hvernig menn koma út úr því öllu saman.

Vandinn er ekki að fullu leystur, það er hárrétt hjá hv. þingmanni og einnig hárrétt að halda þarf áfram að skoða hvaða leiðir eru færar. Þar þurfum við að gera sameiginlegt átak þar sem við þurfum að hafa tvennt að leiðarljósi; að við séum ekki að ávísa beint inn á framtíðina, láta börn og barnabörn okkar borga það áfall sem við urðum fyrir árið 2008, og að við setjum ekki ríkissjóð á hausinn.

Þetta er vandrötuð leið, en hefur tekist býsna vel. Við vitum að það eru nú 15% lægri skuldir hjá heimilunum í heild. Við vitum það. Við vitum líka að vaxtabætur eru að lækka vegna þess að stakkur lánanna á bak við og þar með er vaxtakostnaðurinn að lækka. Það breytir því ekki að ákveðnir aðilar eru enn þá í vandræðum og þeir eru m.a. hjá umboðsmanni skuldara. Úr þeim hópi verðum við að vinna. Það skiptir gríðarlega miklu að hraða því. Síðan verðum við að sjálfsögðu að fara yfir alla ferla til að tryggja að menn lendi ekki í þessari stöðu aftur og finna viðvarandi úrræði fyrir þá sem lenda í skuldavanda vegna tekjufalls eða af öðrum ástæðum. Embætti umboðsmanns er hugsað til lengri tíma sem ráðgjöf og sem tæki gegnum greiðsluaðlögun til að hjálpa mönnum til lengri tíma.

Íbúðalánasjóður er að fara í átak að hreinsa til hjá sér. Þar kemur sértæka skuldaaðlögunin sér vel. Vonandi tekst okkur að tryggja að þeir hafi verkfæri fram yfir áramótin til að vinna í þeim lánum.

Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún er gagnleg. Það skiptir máli að hv. velferðarnefnd fari yfir þau gögn sem liggja hér á bak við og þau verði metin að og rædd í þinginu. Ég veit að það verður gert, hafandi hv. þm. Einar K. Guðfinnsson í nefndinni og formann velferðarnefndar sem fylgist með umræðunni.