141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

makríldeilan.

[13:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í frétt sem ég held að hafi verið á vef Morgunblaðsins í gær og varðar makrílinn blessaðan og yfirlýsingar Damanakis þar sem mér sýndist koma fram að hún teldi að Íslendingar hefðu ekkert reynt að ná samningum í þessari deilu og um þennan mikilvæga fisk í okkar lögsögu. Það mátti skilja þetta þannig að lítið þýddi að ræða við Íslendinga því að þeir hefðu ekkert til málanna að leggja og vildu eitthvað lítið leggja á sig til að ná þessum samningum.

Við þekkjum söguna í Alþingi, við höfum rætt nokkuð oft um viðbrögð stjórnvalda vegna þess sem snýr að þessari deilu. Mér skilst að búið sé að ráða almannatengslafyrirtæki, líklega í Bretlandi, til að gæta hagsmuna Íslendinga í fjölmiðlum og slíkt. Ég fagna því ef það hefur verið gert. Mér þótti á sínum tíma að það hefði átt að gera það fyrr en það er gott að búið er að gera það.

Ef Damanaki heldur áfram að tala svo óábyrgt, því að við höfum þær upplýsingar frá stjórnvöldum að Íslendingar hafi lagt fram ýmsar tillögur í þessari makríldeilu, spyr ég hvort ekki sé ástæða til að mótmæla þessu og leiðrétta á vettvangi stjórnmálanna, þ.e. að ráðherra eða ráðherrar komi á framfæri mótmælum út af þessum orðum Damanakis og bendi á hið sanna í málinu sem er væntanlega það að Íslendingar hafa lagt til ýmsar lausnir á þessari deilu og þar af leiðandi sé einfaldlega rangt af ráðherranum eða embættismanninum eða hvað hún er, þessi ágæta kona, að halda þessu fram. Því óska ég upplýsinga um það frá ráðherra hvort það sé ekki rétt (Forseti hringir.) að menn mótmæli þessu á vettvangi stjórnmálanna.