141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

makríldeilan.

[13:35]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er kannski helst að frétta af þessari stöðu að fundir Norðmanna og Evrópusambandsins í síðustu viku urðu árangurslausir og leiddu ekki til niðurstöðu, þ.e. reglubundnir árlegir fundir um sameiginleg samskipti Evrópusambandsins og Noregs á sviði sjávarútvegsmála þar sem auðvitað eru margir fleiri stofnar undir og samskipti um deilingu kvóta í Skagerak, Kattegat, Barentshafi og víðar. Væntanlega hefur þó makríll ekki verið langt undan á þeim fundum. Sá fundur leiddi ekki til niðurstöðu þannig að þar af leiðandi er ekki við því að búast að sjávarútvegsráðherranefnd Evrópusambandsins komist að niðurstöðu á fundum sínum 18.–20. desember eins og við höfum gert ráð fyrir. Við teljum því að málið sé í óljósri stöðu fram yfir áramótin.

Það kann að vera að þessi ummæli séu til að breiða yfir þá stöðu að Noregi og Evrópusambandinu hefur ekki tekist að ná þarna saman. Í öðru lagi er þetta hefðbundinn umkenningaleikur eins og ég kalla það og við kippum okkur ekki mikið upp við það að hver kenni öðrum um í deilunni. Það sem við höfum gert í staðinn er að vera dugleg við að koma upplýsingum á framfæri um afstöðu Íslands í þessu máli og rök okkar.

Fyrst hv. þingmaður nefndi ráðgjafarfyrirtæki er svo sem ekkert leyndarmál að við styðjumst við ráðgjöf um það að koma sjónarmiðum okkar og rökum á framfæri. Blaðagreinar og viðtöl hafa birst og munu birtast eftir mig eða í viðtölum við mig og formann samninganefndar og sendiherra Íslands í London. Hópur manna er því virkur í því að reyna að koma málstað okkar á framfæri, þar á meðal að hamra á því sem við höfum lagt til til lausnar deilunni eða í formi bráðabirgðaaðgerða til að taka veiðarnar eitthvað niður í áttina að ráðgjöf og þá með því að menn færðu einhliða niður veiðarnar í grófum dráttum miðað við núverandi hlutföll.

Það (Forseti hringir.) hefur ekki náðst árangur í þeim efnum og það er fráleitt að halda því fram að Ísland hafi ekki lagt sitt af mörkum og ekki komið lausnamiðað að samningaborðinu.