141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

ný byggingarreglugerð.

[13:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra segir að við séum að færa byggingarreglugerð í átt til þess sem er í nágrannalöndunum. Það tók Norðmenn og Dani sex ár að búa til sína nýju byggingarreglugerð. Norðmenn settu það fram í tveimur reglugerðum og tóku þennan góða tíma í það. Hjá okkur, eins og kom fram hjá forstjóra Mannvirkjastofnunar, virðist eins og við séum núna í einhverri vertíðarstemningu í lok árs í desember (VigH: Rétt.) á fullu við að vinna þetta mikla og stóra mál á þann hátt, eins og hann sagði, sem er háttur okkar Íslendinga, að rjúka í allt nánast á síðustu stundu. Það er fullkomlega óboðlegt að þetta sé gert á þennan hátt.

Ég tek skýrt fram að hér er ekki eingöngu við Mannvirkjastofnun eða ráðuneytið að sakast, heldur alla hagsmunaaðila sem mér virðist að hafi sofið svolítið á verðinum eða gefið þessu allt of langan tíma.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra svaraði engu um kostnaðarmatið. Það er mjög mikilvægt að fá það fram og þá þýðir ekkert að vera með þetta bil að ein verkfræðistofa segi þetta og (Forseti hringir.) önnur hitt. Við þurfum að fá nákvæmt mat og það er skylda ráðuneytisins að láta þetta mat fara fram. Ég get ekki annað séð en að við Íslendingar eigum engan annan kost en að fresta þessu máli um eitt ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)