141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

bætur til kartöflubænda í Þykkvabæ.

[13:54]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í haust var mikið hret á Norðurlandi og mikið tjón hjá bændum á yfir 220 búum og 9 þús. fjár drápust. Sem betur fer hefur bændum verið bætt það tjón sem varð. Það var snaggaralega gengið til verka.

En enn er óbætt tjón kartöflubænda í Þykkvabæ sumarið 2009 þegar yfir dundu einhver mestu frost sem um getur um áratugaskeið á Íslandi á þessum óvænta tíma. Þar var tjónið álíka mikið og norðan lands í hretinu nú í september, um 120 milljónir. Það er búið að bæta bændum norðan lands 120 milljónir plús 30 milljóna aðgang að eldfjallasjóðum, en ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli ekki að bæta ráð sitt og ríkisstjórnarinnar með því að tryggja bændum í Þykkvabæ bætur fyrir það tjón sem þeir urðu fyrir. Það er að vísu ekki í kjördæmi hæstv. ráðherra en það er á Íslandi og það gengur ekki að mismuna búgreinum eftir framgangi veðurspárinnar.

Það gengur ekki að mismuna búgreinum í tjónabótum og þarna er klárt mál að þriðjungur kartöflubúa á landinu varð fyrir miklu tjóni. Ég skora á hæstv. ráðherra að sýna af sér dug og þor og lýsa því hér yfir að (Forseti hringir.) það verði gengið til bóta í þessu verkefni.