141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

bætur til kartöflubænda í Þykkvabæ.

[14:00]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er ekki alveg svona einfalt því að mismunun getur líka snúið í hina áttina. Það má taka bara sem dæmi kal í túnum sem er tengt veðurfarsástæðum, ekki flokkað sem náttúruhamfarir eða ígildi þeirra, og bætt með hefðbundnum hætti svo langt sem það nær. Það er verið að bæta ýmiss konar tjón eftir hinum hefðbundnu leiðum Bjargráðasjóðs.

Spurningin er alltaf hvenær forsendur eru uppfylltar til að meðhöndla þetta með öðrum hætti. Því miður höfum við fengið á okkur svo afbrigðilega og stóra atburði núna þrjú skipti í röð að ég held að engin deila hafi verið um það þegar eldgosin urðu í Eyjafjallajökli, svo Grímsvötnum og núna þetta óvenjulega hamfaraveður á Norðurlandi þar sem lýst var yfir almannavarnaástandi. Það eru orðnar mjög afbrigðilegar aðstæður sem víkja langt frá tjóni sem er rakið til veðurfarslegra þátta sem búast má við á einhverjum stöðum á landinu nánast árlega (Gripið fram í.) eins og frostskemmda í túnum o.s.frv.

Vissulega var þetta tjón (Forseti hringir.) á Suðurlandi mjög tilfinnanlegt og það er líka rétt að kartöfluræktin á í miklum erfiðleikum þannig að það geta verið gildar ástæður til að skoða það mál.