141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

lög um framhaldsskóla.

[14:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur staðið saman að fjárlagagerð undanfarinna ára og þar hefur vissulega þurft að taka margar erfiðar ákvarðanir. Ég vil þó halda því til haga að þessi ríkisstjórn hefur einmitt forgangsraðað menntamálum í hag að því leyti að hér var farið í gríðarlegt átak, Nám er vinnandi vegur, til að hjálpa ungum atvinnuleitendum inn í skólana, til að hjálpa fólki undir 25 ára aldri inn í skólana, gera kerfið í stakk búið til að taka við öllum þeim sem leituðu inn í skólana þegar harðnaði á dalnum. Markmið þessarar ríkisstjórnar var að við kæmum þó betur menntuð út úr kreppunni en við vorum fyrir. Við höfum staðið saman um það þótt að sjálfsögðu hefði maður viljað gera betur. Þannig er það í þessum málum eins og öðrum en ég fullvissa hv. þingmann um að það er unnið hörðum höndum að þeim markmiðum sem finna má í lögunum. Ég vísa til þeirrar stefnumótunar um starfsnám sem ég nefndi áðan, verkefni gegn brottfalli og styttingu námstíma. Ég held að við eigum eftir að sjá mikla þróun þar fram undan á næstu mánuðum og missirum.