141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

lengd þingfundar.

[14:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel enga ástæðu til að hafa þingfund lengur en þingsköp áætla á þessum degi. Þetta er mikilvægt og flókið mál sem við erum að ræða. Umræðan hefur nú þegar staðið yfir í einn dag. Það má ætla, miðað við mælendaskrána eins og hún liggur fyrir núna, að það taki nokkurn tíma að ræða þetta mál.

Án efa mun ég heyra orðið málþóf í þessum þingsal (Utanrrh.: Þú færð kannski að lesa það af spjöldum.) og jafnvel lesa það af spjöldum hjá spjaldberum sem vappa hér á milli sala og ganga. Þetta er mikilvægt mál og það verður rætt hér. Stjórnarandstaðan mun gera sitt ýtrasta til að breyta stjórnarstefnunni, fá hv. þingmenn til að átta sig á því að það er nauðsynlegt að ná sátt um þessa rammaáætlun. Þannig var lagt af stað með málið og þannig verður málið að enda. (Gripið fram í.) Einhverjir næturfundir um þetta mál breyta engu um það, þetta mál verður auðvitað rætt.