141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Við erum á þingi að vinna samkvæmt gildandi lögum sem voru samþykkt samhljóða á Alþingi, þar meðal af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Við eigum að virða lög sem sett eru á Alþingi. Þess vegna erum við að vinna rammaáætlunina eins og raun ber vitni og þess vegna er tillagan til umfjöllunar í dag.

Það frumvarp til laga sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefnir sérstaklega verður tekið til skoðunar í nefndinni þegar hægist um. Eins og hv. þingmaður veit erum við bókstaflega að drukkna í stórum málum en það er allt annar handleggur að fara í endurskoðun þessara laga sem tiltölulega nýlega er búið að samþykkja með afgerandi samhljómi á Alþingi Íslendinga. Það er allt annað mál en það sem við erum að ræða hér í dag sem er, eins og ég sagði í upphafi, að fara að gildandi lögum (Forseti hringir.) um það hvernig við ætlum að halda á rammaáætlun.