141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins árétta það að það sem við höfum farið fram á, við hv. þm. Árni Johnsen, er aðeins að málið verði tekið fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd. Við erum ekki að biðja um tiltekna afgreiðslu. Það getur vel verið að meiri hlutinn í nefndinni sé okkur andvígur í þessum efnum en okkur finnst hreinlegra að nefndin afgreiði málið nú vegna þess að auðvitað kemur þetta frumvarp okkar fram að gefnu tilefni. Við teljum að í meðförum ríkisstjórnarinnar hafi málið lent í ógöngum.

Við leggjum til lagabreytingu til að skapa forsendur til þess að ná málinu upp úr því hjólfari flokkspólitískra átaka sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar ákváðu að setja það í. Þess vegna finnst okkur ekki óeðlilegt að þetta verði tekið fyrir samhliða. Ef meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar er ósammála okkur í því er betra að sú niðurstaða liggi skýrt fyrir en að einhver ómarkviss orð (Forseti hringir.) séu um að hugsanlega verði þetta tekið fyrir einhvern tímann í framtíðinni.