141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég reikna með að forseti virði mér það til vorkunnar að ég gef enga einkunn um þessi ummæli hv. þingmanns. En ég vil segja annað, nú er uppi sá vandi að ríkisstjórnin hefur haldið þannig á málum að það er engin sátt um þetta mál. Grundvöllur málsins, tilgangur þessa máls alls, var hins vegar að skapa sátt. Úr því að búið er að stýra málinu í þennan farveg sem kannski á ekki að koma á óvart er nauðsynlegt að finna aðrar leiðir sem geta lagt grunn að því að sátt náist. Sú leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent á og lagt fram tillögu um er til þess fallin að kalla fram þessa sátt.

Hví að velja ófrið þegar sátt er í boði? Hvers vegna ekki að draga nú andann djúpt, fresta þessu máli, kalla fram tillögur Sjálfstæðisflokksins þannig að hægt sé að greiða atkvæði um þessa hluti? Rammaáætlun á að lifa af einstakar ríkisstjórnir, hún á ekki að vera stefnuyfirlýsing einstakra ríkisstjórna, hún á að vera grundvölluð á sátt. Þessi málsmeðferð (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar er ekki sáttameðferð, hún er eitthvað allt annað.