141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

um fundarstjórn.

[14:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er komin hingað upp til að lýsa ánægju með fundarstjórn forseta því að ég tel mjög eðlilegt og tímabært að halda áfram 2. umr. um þessa þingsályktunartillögu. Hér var talað um pólitísk fingraför og þá er rétt að geta þess og endurtaka orð þingflokksformanns Samfylkingarinnar um að hér var farið að lögbundnu ferli. Tillögurnar fóru í umsagnarferli og að sjálfsögðu þurfti ráðherra að taka tillit til þeirra, en það er gjarnan þannig að þegar almenningur fær að koma að málum, svo sem lagasetningu eða stjórnarskrá, og það er ekki í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins er það kallað fúsk og óþarft að taka tillit til þess á hinu háa Alþingi. Ég mótmæli þannig aðför að lýðræði og hvet forseta til að halda áfram fundarstjórn sinni hér.