141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:03]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki eins og hv. fyrirspyrjandi og þingmaður nákvæmlega stöðu Skaftárhrepps, hef af henni þungar áhyggjur og hef haft lengi. Hitt er svo annað mál hvort virkjunarframkvæmdir virki þar eins og morfínsprauta sem hafi skammtímaáhrif. Það er, eins og við vitum um virkjanir og þessar framkvæmdir, það er mikil starfsemi í kringum þær meðan virkjanir eru í byggingu en eftir það eru fáir sem koma að verkefninu. En það er allt hey í harðindum í Skaftárhreppi og þá er lykillinn að því að virkjanirnar fari fram á landsbyggðinni að orkan sé nýtt í heimabyggð, við þekkjum best ég og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson stöðuna á Suðurlandi.

Það er forsenda þess, hv. þingmaður, að það verði til varanleg störf. Virkjunin er bara eins og hver önnur fíkniefnasprauta á meðan hún stendur og svo þarf aðra sprautu. Þannig hafa stóriðjuáformin gjarnan gengið á síðustu árum. Það er mikið í gangi, eins og í Kárahnjúkavirkjun, svo kemur fallið og ekkert á eftir. Þá þarf nýja sprautu, það þarf nýjan skammt ef fram á að ganga.

Það liggur fyrir að gögn varðandi Hólmsárvirkjun virðast hafa týnst, eða hvernig sem á að orða það, í vinnslunni og ekki komið fram, þess vegna var virkjunin sett í biðflokk. Ég vil skoða þessa virkjun með mjög jákvæðum hug, ég verð að segja alveg eins og er. Ég vil líka benda á, hv. þingmaður, að sé það ljóst að virkjunin eigi heima í orkunýtingarflokki þá er hægt að breyta til á tiltölulega skömmum tíma. Það bíður ekki 3. áfanga rammaáætlunar. Það er hægt að vinna í biðflokknum á meðan vinnsla við 3. áfanga stendur yfir.