141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi morfínsprauturnar þá vil ég benda á reynslu við Búrfellsvirkjun. Þá var Gnúpverjahreppur dreifbýlissamfélag sem byggði fyrst og fremst á landbúnaði og þó að vissulega hafi verið gríðarleg vítamínsprauta og mikill uppgangur á þeim tíma þá varð það líka til þess að fólk sem kom þangað settist að. Það kom nýtt fólk inn í samfélagið og það er þar enn. Það er mjög líklegt að það muni gerast í Skaftárhreppi líka. Auk þess sem þar verða til þrjú til fimm störf við virkjunina sem ekki eru til í dag. Störf sem eru algjörlega ótengd þeirri starfsemi sem er þar í dag.

Virkjunin mundi líka auka möguleikana á því að styrkja raforkukerfi landsins, afhendingaröryggi raforku og auka nýtingu í heimabyggð.

Af því að hv. þingmaður hefur lagt ríka áherslu á að stækka biðflokkinn þá hef ég bent á að hér hefur verið misvísandi umræða um að biðflokkurinn megi ekki vera geymsluflokkur. Hv. framsögumaður hefur verið mér sammála um að skoða þurfi biðflokkinn. Ég hef lagt til að stofnaður verði annaðhvort nýr biðflokkur eða (Forseti hringir.) að innan biðflokksins verði skilgreint að hann sé geymsluflokkur. Líka að hægt sé að vera með nýtingarflokk í bið eða (Forseti hringir.) biðflokk til nýtingar þar sem möguleikar séu á að fá fjármagn til rannsókna. Hvað hann segir um þá hugmynd?