141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um veikleika vegna þess að menn mynda sér sjálfstæðar skoðanir eftir umsagnarferlið sem hefur verið í gangi og hefur þýðingu í mínum huga, það er bara svoleiðis. Eins og ég ræði hér um Hólmsárvirkjun við Atley hefur það komið fram frá hendi verkefnisstjórnarinnar að þar urðu mannleg mistök. Gögn týndust og þess vegna var þessu raðað svona, og þau rök eru sett fram í þingsályktunartillögunni.

Það hefur verið sýnt fram á, m.a. með gögnum frá hinu gamla iðnaðarráðuneyti, að það hefði átt að taka tillit til þessara gagna og þá hefði Hólmsárvirkjun við Atley verið sett í nýtingarflokk. Þarna er um mannleg mistök að ræða og ég tel, virðulegi forseti, að það sé ekki veikleiki í því þegar Alþingi segir, hin endanlega stofnun sem tekur ákvörðun um þetta: Já, við skulum fallast á þessi atriði, jafnvel þó að sérfræðingar séu ekki búnir að stimpla það.

Ég átti hins vegar spurningar á nefndarfundi til manna úr faghópum, gott ef það var ekki formaður. Þar spurði ég um þessi gögn og svarið sem ég fékk þar á ég svolítið erfitt með að fara með hér nákvæmlega en það fyllti mig þeirri trú sem ég hef hér um að það átti að taka tillit til þessara atriða.

Nákvæmlega það sama getum við sagt með Urriðafoss, já, en ég hef gagnrýnt það. Af hverju komu rök Orra Vigfússonar varðandi laxagengd í Urriðafossi ekki fyrr fram í ferlinum? Þau komu seint og ráðherrarnir tóku það til. Laxarök í Urriðafossi gera það ekki að verkum að ekki eigi að virkja um Hólmsár- og Hvammsvirkjun. Það er bara ekki sett þannig saman, þetta tengist ekki og það hefur líka komið fram í hinni faglegu vinnu.