141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hnykkir á þessu með týndu gögnin og bætti því við — og það getur vel verið að það hafi ekki komið nógu skýrt fram hjá mér — að strax við umhverfismat áætlunarinnar hafi komið fram að þau væru týnd. Ráðherrarnir sem fjölluðu um þetta í lokin, og gerðu þingsályktunartillöguna sem við erum hér að ræða um, hafa vitað af þessum gögnum, það er alveg rétt. Það sýna líka gögn sem komu úr hinu gamla iðnaðarráðuneyti, þar sem var verið að velta vöngum yfir þessu. Hagsmunaaðilar bentu á þessi atriði, t.d. Orkusalan í tilfelli Hólmsárvirkjunar við Atley. Þau hefðu því átt að vera ljós og að mínu mati hefði átt að taka tillit til þessara gagna alveg eins og gagna sem komu fram varðandi Urriðafoss, eins og ég hef gert að umtalsefni, og ýmsa jarðvangskosti á Reykjanesi. Þá hefðu ráðherrarnir getað lagt það fram. En eins og ég segi, það er endanleg ákvörðun hér hjá Alþingi, hinum lýðræðislega kjörnu fulltrúum, að taka þessa ákvörðun. Um stuðning varðandi rammaáætlun, (Forseti hringir.) þegar atkvæðagreiðslan verður kemur afstaða mín í ljós.