141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverða og yfirgripsmikla ræðu, enda er hv. þingmaður vel inni í þessum málum eftir starf sitt og auðvitað vinnuna í nefndum þingsins.

Það eru tvö atriði sem mig langar að spyrja um. Í fyrsta lagi þá er vikið frá þeirri tillögu sem sérfræðinganefndin, sem flokkaði kostina í flokka, lagði fram, þ.e. sá hópur sem Svanfríður Jónasdóttir og fleiri sátu í, ekki verkefnisstjórnin. Það er vikið frá tillögunni varðandi Þjórsárvirkjun, eins og minnst hefur verið á, og svo eins varðandi Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir.

Ég gat ekki heyrt að hv. þingmaður kæmi inn á þessar virkjanir í ræðu sinni en mig langaði að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé sannfærður um að sá rökstuðningur sem viðhafður er af hálfu ráðuneytanna við það að færa þessa kosti úr nýtingu yfir í biðflokk sé réttlætanlegur. Rökstuðningurinn felst í því að þeir séu nálægt Vatnajökulsþjóðgarði og að líta skuli til að þar sé um víðerni að ræða. Ég vil fullyrða að verkefnisstjórnin horfði mjög svo til þessara sjónarmiða þegar hún vann sína vinnu og ég tel að þessi rökstuðningur sé í rauninni mjög rýr, að það sé ekki hægt að segja að þarna séu að koma upp ný sjónarmið sem verkefnisstjórnin hafi ekki horft til, því það var mikill þungi lagður á að skoða þessi sjónarmið inni í verkefnisstjórninni. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að tilfærslan á þessum kostum sé réttlætanleg.