141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Hún spyr mig út í Skrokköldu- og Hágönguvirkjun og hvernig vikið var frá tillögunni þar. Það eitt af þeim atriðum sem ég hef gert að umtalsefni og við þingmenn verðum að vega og meta. Þar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að vegna þeirra raka sem sett eru fram um áhrifasvæði þjóðgarðsins, að það sé rétt að skoða það betur, þá hef ég ekki gert athugasemdir við það. Mér finnst að með veru í biðflokki gefist okkur tími til að fara betur yfir þetta. Það er ekki langt síðan við stofnuðum þjóðgarðinn, það er ekki langt síðan við vorum að vinna þarna og það er ekki langt síðan sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti að stækka áhrifasvæðið, tók inn Langasjó og Eldgjá. Hún gerði það með rökum þar sem voru góðir menn sem beittu sér fyrir því til meiri sáttar. En þeir menn sem þar unnu, unnu jafnframt að meiri sátt í sveitarfélaginu við það að setja virkjanir inn á skipulag.

Mér fannst mjög virðingarvert af sveitarstjórninni hvernig staðið var að þessu og er algjörlega sammála henni hvað varðar þessa tvo staði. Mér finnst hins vegar verra að þegar ég kem á fund hjá þessari ágætu sveitarstjórn er ég upplýstur m.a. um að þetta hafi verið hluti af sátt sem var gerð. Síðan er aðalskipulagið staðfest og kynnt einhvern tíma seint og um síðir í vikunni og verður ekki mikil umræða um það en hugsanleg línulögn er tekin út. Þarna finnst mér að sveitarstjórnin hafi verið að vinna mjög faglega og vel og á ábyrgan hátt en svo komi dálítið á eftir sem skemmi þann feril, sem gerir það að verkum að þarna verður togstreita um. En ég tek það skýrt fram, virðulegi forseti, að ég met rökin hvað þessa virkjunarkosti tvo varðar, sem hv. þingmaður hefur gert að umræðuefni, út af áhrifasvæði þjóðgarðsins.