141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er um hvort maður er sáttur eða ósáttur og hvort maður er sammála eða ósammála, það er hluti af þessum lýðræðislega ferli sem við eigum að vinna eftir eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar. Það fá ekki allir sitt fram og það verða allir að gefa eitthvað eftir. Það er hluti af því að vinna mál til sátta. Ég tel einfaldlega að það sé ekki fullreynt og það hafi átt að gera meira í því að ná þeirri sátt í vinnu þingnefndanna.

Virðulegi forseti. Hvað varðar tillögu sjálfstæðismanna sem hefur verið flutt hér sem lagafrumvarp um breytingu á lögum um rammaáætlun, ef ég man rétt, er ég ekki þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegur þáttur til að gera það sem ég sakna mest, þ.e. að þingið, þingnefndin og við þingmenn hér, sem skuldum þjóðinni það að ná meiri sátt um þessa hluti og aðra, að ekki sé fullreynt til þess. Virðulegi forseti. Að mínu mati þarf ekki samþykkt þess frumvarps, það þarf ekki að gera það að lögum til þess að vinna að sátt. Það væri einfaldlega hægt að setjast niður og reyna að tala sig að niðurstöðu.