141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef eins og hv. þingmaður talsverðar áhyggjur af því í hvaða farveg þetta mál er komið, mál sem við ætluðum okkur að ná sátt um og reyna að leggja fram slíkar tillögur að við gætum náð einhverri málamiðlun.

Sú framtíðarsýn sem hv. þingmaður talaði hér um að gæti verið í spilunum, að þegar skipt yrði um ríkisstjórn yrði sett ný rammaáætlun, er slæm og ég vona svo sannarlega að við séum ekki orðin of sein að setjast niður og reyna að ná betri lendingu en hefur komið á daginn.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á þær tillögur sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram í þessu máli, þ.e. það þingmál sem við lögðum fram varðandi farveginn sem rammaáætlun ætti að fara í, og hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér þær og sé tilbúinn að veita þeim brautargengi í þinginu.