141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé akkúrat mergur málsins. Ég ítreka það að í mínum villtustu hugmyndum, þó að mér detti ýmislegt í hug sem hæstv. ríkisstjórn gæti tekið sér fyrir hendur, hvarflaði ekki að mér að lögin yrðu notuð með þessum hætti, það hvarflaði ekki að mér að hægt væri að túlka lögin þannig að þau kollvörpuðu þeim hugmyndum sem komið var með. Hugmyndin á bak við þetta og að setja málið til umsagnar var akkúrat sú að kalla fram ný viðbótargögn, viðbótarumsagnir almennings og annað í þeim dúr þannig að menn gætu tekið tillit til tveggja kosta og fært þá á víxl hvorn í sína áttina.

Varðandi Hólmsárvirkjun, ef hún hefði verið metin með þessum hætti og færð í nýtingarflokk vegna þess að það vantaði gögn, það kom í ljós að það voru mannleg mistök, og ráðherrarnir hefðu notað þann tíma, sem var nú drjúglangur, ég held að það hafi verið allt að því heilt ár, til að rannsaka málið og fá faghópana til þess, hefðu kallað formenn faghópanna til sín, og hefðu metið það svo að setja þann kost í nýtingarflokk og fært á móti einhverja aðra kosti í bið þá hefði komið meira jafnvægi í flokkunina. En það er algjörlega 100% ójafnvægi og öfgar (Forseti hringir.) sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu gagnvart vatnsaflsvirkjunum.