141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski er það einmitt tilfellið að þegar þessi lög, nr. 48/2011, voru samþykkt hefði verið barnalegur einfeldningsskapur að trúa því og treysta að það væri raunverulegur vilji allra að um rammaáætlunina mundi ríkja sem víðtækust sátt. Það virðist vera sem þessi lög hafi einmitt verið notuð til hins gagnstæða.

Tökum Hagavatnsvirkjun sem dæmi. Þar eru langflestar umsagnirnar mjög jákvæðar þannig að hafi menn viljað taka tillit til jákvæðra umsagna hefði Hagavatnsvirkjun átt að fara í nýtingarflokk. Við höfum áður minnst á Hólmsárvirkjun sem í ljós kom að verkefnisstjórnin náði ekki að kanna vegna þess að gögnin týndust. Ef ráðherrarnir hefðu sýnt jákvæðan vilja og skoðað það og nefndin í kjölfarið þá hefði verið mjög líklegt að sá kostur hefði lent í nýtingarflokki, þ.e. ef menn hefðu viljað gera það. Á sama hátt mætti segja um einstakar jarðvarmavirkjanir að menn teldu að mjög margar neikvæðar umsagnir væru um þær og sumar þeirra væru á það góðum rökum reistar að skynsamlegt væri að setja þær í bið. Þá hefði verið meira jafnvægi í þessu. Þá hefði hugsanlega ríkt (Forseti hringir.) um þetta meiri sátt þó svo að ekki hefðu allir orðið jafnsáttir.