141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að það er rétt hjá hv. þingmanni að það vantar gögn í mörgum málum og í sumum vantar mjög mikið af gögnum til að kanna virkjunarkosti. Þess vegna hef ég einmitt talað fyrir því að biðflokkurinn verði annars vegar geymsluflokkur, ég veit að hv. þingmaður er mér ekki sammála um það, og hins vegar yrði hugsanlega til nýr biðflokkur, rannsóknarflokkur væri ágætt orð fyrir hann, vegna þess að til að fjármagna rannsóknir þarf að vera einhver vísbending um að viðkomandi virkjunarkostur fari í nýtingu, ekki endilega að hann verði nýttur en vísbending um að menn vilji skoða það. Menn setja ekki fjármagn í að rannsaka virkjunarkost í biðflokki en það yrði hins vegar mun líklegra ef hann væri í nýtingarflokki. Það þýðir ekki að viðkomandi virkjunarkostur verði nýttur. (Forseti hringir.) Hins vegar auðveldar það að fá fjármagn í hann. Þess vegna held ég að þetta sé hugmyndafræði sem þurfi að ræða.