141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:48]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er fegin að heyra hv. þingmann taka af vafa um það að hann líti ekki svo á að atvinnusjónarmið geti verið grunnforsenda ákvörðunartöku við virkjanir en að til þeirra megi taka tillit. Verkalýðshreyfingin kallar eftir virkjun í Þjórsá á forsendum atvinnusjónarmiða, en spurningin sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Er það réttlætanlegt sem meginforsenda fyrir því að ráðast í slíka virkjun?

Eins og rök hafa verið færð fyrir bendir flest til þess að þar þurfi að kanna mál betur, rannsaka betur og beita þeirri varúðarnálgun sem við Íslendingar erum skuldbundin til að beita sem aðilar að alþjóðasamningum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann miðað við rammaáætlun, eins og hún lítur út, að ekki séu nægir virkjunarkostir opnir nú þegar til að anna þeirri virkjunarþörf sem raunverulega er til staðar (Forseti hringir.) á þessari stundu?