141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við síðustu spurningunni er einfaldlega nei, en um leið og ég segi nei hef ég líka sagt, og ég er búinn að segja það svo oft í dag að ég veit ekki hversu oft, að það að setja virkjunarkost í nýtingarflokk þýðir ekki að hann verði nýttur heldur verði auðveldara að fá fjármagn til að klára rannsóknir og svo verði farið af stað í nýtingu á þeim kosti séu aðstæður í landinu til þess, m.a. atvinnuskapandi, verðmætaskapandi, búi til útflutningstekjur, verðmæt störf, fjármagn, þ.e. gjaldeyri sem okkur veitir ekki af. Til þess höfum við hingað til verið tilbúin að nýta auðlindir okkar á skynsamlegan hátt.

Ég tel að ég hafi farið yfir það að mjög málefnaleg rök segja til að mynda að tvær efri virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár mættu fara af stað. Ég hef lagt til að Urriðafoss verði settur í biðflokk. Ég hef líka talað um Hólmsárvirkjun, að mörg málefnaleg rök hnígi að því að skynsamlegt sé að sá kostur fari í virkjunarflokk vegna (Forseti hringir.) efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa.