141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig ekki geta svarað öllum þessum spurningum á einni mínútu. Hv. þingmaður vekur athygli á fimm efnisþáttum sem ég fór ekki yfir í ræðu minni áðan, sem eru ábendingar til ráðherra og Alþingis á bls. 25. Ég fór yfir ábendingar til næstu verkefnisstjórnar, en það er rétt að spurning er hvort ekki sé rétt að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana. Stærð svæðis er ekki alltaf ákvarðandi um áhrif eða nýtingu. Þegar miðað er við stærðarmörk þá geta bæði góð virkjunarsvæði og svæði sem ástæða er til að vernda til frambúðar fallið utan garðs. Við erum að temja okkur ný vinnubrögð með rammaáætluninni og það er spurning hvort hún eigi ekki að taka til smærri virkjunarsvæða.

Hvað varðar endurmat ónýttra kosta í orkunýtingarflokki að tilteknum tíma liðnum þá vil ég vísa hv. þingmanni beint yfir blaðsíðuna í B-lið þar sem fjallað er um ábendingar til verkefnisstjórnar. Þar sem segir, eins og ég nefndi áðan, að flokkun kosta í nýtingarflokk er að mati meiri hlutans: „ekki endanleg þar til rannsóknum öllum er lokið og virkjunar- og framkvæmdaleyfi eru veitt. Verkefnisstjórnin hlýtur hverju sinni að hlusta á sérstök rök sem færð eru gegn virkjunarkostum sem hafa verið samþykktir í þann flokk, svo sem í takti við þróun í umhverfismálum og breytt viðhorf til náttúruverndar, eða í tengslum við samfélagsbreytingar, sem t.d. gætu kallað eftir nýjum útivistarþörfum.“

Síðan stendur: „Á sama hátt er rétt að athuga verndarkostina ef upp koma nýjar upplýsingar eða sérstök sjónarmið sem draga úr verndargildi svæðisins.“ Þannig að hér er á þessu tekið (Forseti hringir.) hv. þingmaður. „Buffer zone“ eða áhrifasvæðinu næ ég ekki.