141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi nýtingarflokkinn og þá kosti sem eru settir í hann vil ég spyrja hv. þingmann hvort hv. þingmaður hafi ekki sama skilning og sá sem hér stendur, að það að setja kost í nýtingarflokk þýði ekki endilega að hann verði nýttur heldur að það sé auðveldara að fá fjármuni til rannsókna. Er nokkuð að því þegar maður talar um varúðarsjónarmið og að fara varlega í öllu, bæði með jarðvarmavirkjanirnar sem þar eru sannarlega og hugsanlega vatnsaflsvirkjunarkostina sem hefðu að mínu mati átt að vera í nýtingarflokknum og kannaðir til hlítar? Það er ekki 100% öruggt að kostir í nýtingarflokki verði nýttir. Það getur vel komið í ljós að það sé óskynsamlegt og óarðbært.

Að lokum eitt, hv. þingmaður nefndi það að beina því til verkefnisstjórnarinnar, eða lagafyrirmæla eða ég vissi ekki hvert það átti að fara, (Forseti hringir.) að orkufyrirtækin gætu ekki komið inn með mótvægisaðgerðir í sveitarfélögum og þá vil ég spyrja hv. þingmann, þar sem (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn þiggur IPA-styrki í stórum stíl frá Evrópusambandinu á meðan á aðildarviðræðunum stendur, hvort hún sjái einhverja samlíkingu með þessum (Forseti hringir.) tveimur hlutum.