141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við skoðum þá þingsályktunartillögu sem er umfjöllunarefni þessarar umræðu blasir við að áherslan í henni er öll á háhitasvæðin en síður á vatnsaflsvirkjanir. Við getum sagt að tvær vatnsaflsvirkjanir fái náð fyrir augum þeirra sem undirbjuggu þetta plagg og komust í nýtingarflokk en háhitasvæðin eru hins vegar býsna mörg.

Í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar eru hins vegar sett fram mikil varúðarsjónarmið um hvers konar nýtingu á háhitasvæðum. Það er talað um að það vakni efasemdir og áleitnar spurningar um sjálfbærni orkuvinnslunnar. Hv. þingmaður talaði meira að segja um að um væri að ræða sóun og sjálftöku núverandi kynslóðar í þessum efnum, það væru sömuleiðis efasemdir og áleitnar spurningar um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva og affallsvatns. Hv. þingmaður fór yfir það áðan. Hið sama á við um mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis sem hv. þingmaður ræddi líka talsvert og loks jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar sem hv. þingmaður fór enn fremur nokkrum orðum um og vitnaði til reynslu af þessum efnum.

Þá vaknar spurningin: Hver er eiginlega boðskapur meiri hluta nefndarinnar? Annars vegar höfum við tillöguna sem hv. þingmaður gerir ekki tillögu um að verði breytt, um að áherslan sé á háhitasvæðin og nýtingu þeirra, og hins vegar koma fram þessar grafalvarlegu athugasemdir sem maður hlýtur að leiða af því að meiri hlutinn vari við því að fara þessa leið. Ég spyr hv. þingmann: Hvaða áhrif hafa þessi sjónarmið á möguleika á nýtingu á háhitasvæðum eins og til dæmis á Reykjanesi eða við Þeistareyki svo ég taki bara dæmi af virkjunarkostum sem menn hafa verið með í umræðunni? (Forseti hringir.) Er ekki ljóst mál að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar er í raun að dæma þessa möguleika úr leik?