141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar er að gera er að hvetja til þess að varlega verði stigið til jarðar við nýtingu háhitans vegna þeirrar reynslu og þeirrar nýju þekkingar sem hefur orðið til á undanförnum árum. Íslendingar eru frumkvöðlar í nýtingu háhitans en hér á landi eru aðstæður mjög sérstakar. Það á til að mynda við um það hve nýtt landið er, hve ný hraunin eru og gropin.

Hv. þingmaður nefndi ekki einn af þeim ókostum sem ég hafði orð á, lónmyndun á yfirborði. Það er hægt að komast hjá þessum atriðum flestum ef menn vanda sig, en það kann að vera mjög dýrt og þess vegna segjum við að það þurfi að horfa til þess fyrir fram í umhverfismati og líka til kostnaðarins þegar kemur að því að selja orkuna. Orkan okkar er dýrmæt en við skulum heldur ekki láta eins og það kosti ekki neitt að afla hennar og ef það kostar það að grípa þurfi til varúðarráðstafana til að losna við óæskileg áhrif, mengun á neysluvatni eða mengun á andrúmslofti, hlýtur það að koma fram í endanlegri verðlagningu á raforkunni sem þannig er búin til.

Við þekkjum miklu betur ókostina við vatnsaflsvirkjanirnar. Þar er þessi stóra lónmyndun á yfirborði þar sem grónu landi er sökkt. Við höfum nýjar upplýsingar um að jarðhitageymirinn sé ekki endanlegur heldur séu þetta stakar varmanámur. Það er alveg nýtt og við verðum að taka tillit til nýrrar vísindalegrar þekkingar á hverjum tíma og það er það sem við erum að hvetja til.