141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt eða ég hef mismælt mig, ég hef ekki sagt neitt um að orkufyrirtækjunum væri ekki treystandi til að framkvæma þessar rannsóknir. Það sem ég sagði var að þær væru vandasamar og gætu orðið dýrar. Það þarf að taka tillit til þess fyrir fram.

Ég tel ekki að skilaboðin í þessu séu neitt óljós. Þetta er ekki orkustefnuplagg. Orkustefna er allt annað en það sem við erum að tala um hér. Við erum að setja ramma utan um annars vegar nýtingu og hins vegar vernd. Menn tala hátt um að ekkert sé hægt að virkja miðað við þetta en ég vil bara vekja athygli á því að í nýtingarflokki eru samkvæmt tillögunum 8,5 teravattstundir af orku og þetta er ögn meira en öll sú orka sem var framleidd í landinu á árinu 1999 þegar vinna við rammaáætlunina fór af stað. Það er ekki eins og það sé verið að skrúfa hér fyrir allt. Það sem við erum að vekja athygli á er að við skulum ekki hunsa nýjar vísindarannsóknir, við skulum stíga varlega til jarðar og (Forseti hringir.) við skulum vanda okkur.