141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:47]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þurfum við að virkja? Á hvaða forsendum eigum við að virkja? spyr ég hv. þingmann. Hann talar um atvinnulífið, hann talar um aukna verðmætasköpun. En virkjun náttúruauðlinda þýðir að gengið er á náttúrugæði. Við þurfum því að vera mjög meðvituð um það, þegar við ákveðum að ganga á náttúrugæði, í hvaða tilgangi það er gert og hversu rík þörfin sé. Er það orkuþörfin sem ræður þá för eða eru það ómálefnaleg eða önnur sjónarmið sem kannski tengjast ekki beint eins og t.d. atvinnusjónarmið og óskilgreind verðmætasköpun og þá fyrir hvern?

Nýting háhitasvæðanna, eins og þingmaðurinn kom inn á, er umhugsunarefni, það er alveg rétt, vegna þess að fram eru að koma vísbendingar um að þau séu viðkvæm, að þau séu ekki endurnýjanlegar auðlindir með sama hætti og talið var. Þau eru endurnýjanleg en það tekur miklu lengri tíma fyrir þau að endurnýja sig en áður var talið. Þau eru ekki endalaus brunnur.

Orkustefnu þurfum við auðvitað að setja, orkustefnu þurfum við að tengja við þessa rammaáætlun en þessi rammaáætlun tekur fyrst og fremst mið af nýtingu og vernd ákveðinna landsvæða. Orkunýtingarstefna er síðan eitthvað sem við þurfum að tengja við þessa rammaáætlun eins og hún liggur fyrir.