141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ánægjulegt í sjálfu sér að við séum þó komin að því að fara að afgreiða í fyrsta sinni þingsályktunartillögu sem byggir á hugmyndafræðinni um rammaáætlunina. Þetta er gömul hugmyndafræði sem tók nokkurn tíma að þróa, en það má segja að þetta metnaðarfulla verk, að reyna að búa til jafnvægi milli nýtingarinnar og verndunarinnar, hafi byrjað formlega fyrir svona 13 til 14 árum, árið 1999. Það var á sínum tíma undir pólitískri forustu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Ég hygg að enginn hafi dregið dul á að verkið yrði mjög erfitt að öllu leyti og það væru mjög margir þættir sem þyrfti að horfa til. Enda var teiknað inn í þetta ferli allt saman, bæði sjónarmið sem lutu að nýtingunni, að arðseminni, að verndarsjónarmiðum, að sjónarmiðum margvíslegra atvinnugreina, landeigenda, ferðaþjónustu, orkufyrirtækja, annarra sem vilja kaupa orkuna og þar fram eftir götunum. Það voru með öðrum orðum mjög margar breytur undir. Það var mjög margt sem menn voru að reyna að leiða fram og tryggja að leiddi til að niðurstaðan gæti orðið sú sem menn vonuðust eftir, nokkuð víðtækt pólitískt samkomulag um þá niðurstöðu sem fengist að lokum.

Lengst af gekk það mjög vel. Verkefnisstjórnir tóku við af verkefnisstjórnum. Málinu vatt fram. Smám saman skýrðist myndin. Smám saman varð ljóst í stórum dráttum hvaða verkefni yrðu örugglega verndarverkefni og hvaða verkefni gætu mögulega orðið nýtingarverkefni. Allt lofaði þetta mjög góðu og byggðist auðvitað mjög mikið á pólitísku trausti og trausti manna á að það verkferli sem mótað var fyrir 13 til 14 árum fengi að halda sér. Að menn mundu standast freistinguna að færa málin aftur inn í þann gamalkunna búning sem var efni í miklar pólitískar þrætur árum og áratugum saman og við öll þekkjum, bæði yngri og eldri. Ég hygg að í hugum okkar flestra var mikils til vinnandi að við næðum að breyta áherslunum sem við höfðum áður haft í þær sem verkefnisstjórnirnar voru að vinna að og litu síðan dagsins ljós í þykkum, ítarlegum og vel unnum faglegum skýrslum þeirra.

Það var gert ráð fyrir að lögð yrði fram ákveðin þingsályktunartillaga sem ætti að endurspegla alla þessa vinnu. Þá gerðist það fyrir tveimur árum eða svo að ákveðið var að breyta ferlinu á lokastigum þess, svona um það leyti sem verkefnunum var að ljúka af hálfu verkefnisstjórnarinnar. Þá var ákveðið að búa til eins konar nýja stoppistöð fyrir ferlið. Hún var inni í ríkisstjórninni og átti að fela tveimur ráðherrum að taka við drögum að þingsályktunartillögu sem byggðist á vinnu verkefnisstjórnanna. Þessi drög að þingsályktunartillögu fólu í sér ákveðnar tillögur um verkefni sem færu í nýtingarflokk í fyrsta lagi, biðflokk í öðru lagi og verndarflokk í þriðja lagi.

Í raun og veru var kannski ekki stórpólitískur ágreiningur um að það kynni að vera á margan hátt skynsamlegt að búa til þessa stoppistöð, sem ég vil kalla svo. Af hverju er það þannig? Það var auðvitað ljóst mál að þótt verkefnisstjórnirnar væru að vinna vel og mjög fagmannlega hlaut þetta að verða pólitísk ákvörðun að lokum, eðli málsins samkvæmt. Við höfðum auðvitað flest hver væntingar til þess að þessi pólitíska ákvörðun yrði reist eingöngu á faglegum forsendum, en létum af því og reyndum að standast freistingarnar sem auðvitað voru í hugum okkar margra um að setja verkefni sem við töldum sjálf í hjarta okkar og huga að ættu þar heima inn í einhverja þessara þriggja flokka.

Það sem hlaut líka að liggja til grundvallar, a.m.k. lá það til grundvallar minni afstöðu í þessu máli, var að auðvitað var mörgum það ljóst að einhvern tímann yrði málinu að ljúka í þessari faglegu vinnu. Þá gætu komið upp réttmætar efnislegar athugasemdir sem gerði það að verkum að áður en málið færi inn til Alþingis væri rétt að láta fara yfir það. Skoða málið í því ljósi að menn tækju afstöðu til athugasemda og ábendinga sem bærust frá almenningi, frá fyrirtækjum, sveitarfélögum, almannasamtökum, frjálsum félagasamtökum og þeim öðrum sem vildu láta í sér heyra varðandi þessi verkefni.

Svona teoretískt séð hljómaði þessi hugmynd, sem seinna var leidd í lög, 2011 hygg ég að það hafi verið, ekkert mjög illa. Þar sem gert var ráð fyrir því að farið yrði faglega yfir málið undir verkstjórn tveggja ráðherra og þannig yrði það keyrt inn í Alþingi.

Það sem gerðist hins vegar var að hæstv. ráðherrar brugðust þessu trausti okkar. Ekki bara trausti okkar alþingismanna, sem í góðri trú samþykktum lögin því við treystum því að menn reyndu að halda áfram á þeirri braut sem hafði verið mörkuð fyrir nærri einum og hálfum áratug síðan. Þess vegna erum komin í þennan mikla vanda sem við er að glíma. Það sem gerðist, og er alveg sjáanlegt og er enginn vandi að sýna fram á og ég ætla aðeins að rekja hérna með nokkrum dæmum, er það að þegar sú vinna, sem átti að vera framhald af hinni faglegu vinnu sem naut mikils trausts í samfélaginu hjá öllum hagsmunaaðilum jafnt friðunarsinnuðu fólki, nýtingarfyrirtækjunum, sveitarfélögunum, almannasamtökunum og okkar þingmönnum, var komin í hendurnar á hæstv. ráðherra var hún öll komin í uppnám.

Ástæðan var auðvitað einföld. Á bak við núverandi hæstv. ríkisstjórn standa stjórnmálaflokkar sem hafa mjög stríð sjónarmið gegn nýtingu orkuauðlinda, þannig er það. Annar stjórnmálaflokkurinn er hér um bil stofnaður utan um þá hugmyndafræði og er í raun og veru framhald þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað að minnsta kosti síðan á 7. áratugnum og örugglega lengur, um kosti og galla nýtingarstefnu þegar kemur að notkun á orkuauðlindum okkar. Innan Samfylkingarinnar eru sömuleiðis mjög sterk sjónarmið í þá átt að nýta eigi minna og vernda meira. Þá er ekki verið að horfa til hinna faglegu þátta, þá er fremur verið að horfa á upplifun eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir lýsti fyrir okkur og á fullan rétt á sér í þessa umræðu. Þá verða menn hins vegar að gera greinarmun. Annars vegar er það upplifunin og hins vegar er reynt að búa til jafnvægismat á þeim þáttum sem ég var hér að gera grein fyrir.

Gleymum því ekki að á landsfundi Vinstri grænna 28.–30. október 2011 var ályktað um að flokknum yrði falið að stækka verndar- og biðflokkinn. Með öðrum orðum: Erindið var lagt fyrir hina pólitísku fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs og var þetta: Virðum að vettugi niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, berjumst fyrir því pólitíska markmiði okkar að fækka nýtingarkostunum, fjölga verndunarkostunum og fjölga í biðflokknum til þess að gera það að verkum að við náum okkar sjónarmiði fram, okkar hugmyndafræði, okkar hugsjónum, um það að nýta minna og vernda meira. Það var auðvitað bara þannig.

Þegar það liggur fyrir svona afdráttarlaus pólitísk yfirlýsing af hálfu annars stjórnarflokksins um að una ekki niðurstöðu verkefnisstjórnanna, er það bara þannig að það hlýtur að hafa afleiðingar. Þetta er í rauninni krafa um að stækka annars vegar verndarflokkinn og hins vegar biðflokkinn og minnka nýtingarflokkinn.

Fyrir okkur sem fylgdumst með, og það var auðvelt að fylgjast með því þetta fór nú fram mikið í fjölmiðlum, þessum átökum sem urðu innan stjórnarflokkanna og milli þeirra að einhverju leyti var þetta auðvitað allt saman deginum ljósara.

Í þessum efnum voru svona ákveðin tabú. Það var t.d. algjört bannorð að nýta kostina í neðri hluta Þjórsár. Það er mikið afturhvarf frá sjónarmiði hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra sem tefldi þeim virkjunarkosti fram gegn ýmsum öðrum virkjunarkostum sem menn höfðu á fyrri stigum verið að ræða um m.a. á hálendinu. Þá kom hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og sagði: Látum þessa virkjunarkosti á hálendinu vera og förum fremur í það að virkja við neðri hluta Þjórsár, þar sem þar er fyrst og fremst um að ræða manngert land og afleiðingarnar fyrir hina óspilltu náttúru eru fyrir vikið miklu minna virði.

Engu að síður var þetta orðið svona heilagt stríð gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Það lágu fyrir svardagar einstakra þingmanna um að verndun neðri hluta Þjórsár væri orðin forsenda stuðnings við ríkisstjórnina og það varð auðvitað að setja þetta inn í þennan búning. Það kom sér vel að þessum lögum hafði verið breytt, að þessi nýja stoppistöð hafði verið búin til fyrir hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar til þess að möndla með málið eftir að það var komið út úr því ferli sem ég var að gera grein fyrir. Þess vegna var alveg kjörið að taka málið inn og möndla með það í einhvern tíma undir þeim formerkjum að nú væri verið að skoða þetta mál í anda laganna og síðan kæmi einhver niðurstaða fram sem væri það sem við tækjum afstöðu til.

Nú höfum við heyrt það hér í dag að mjög skiptar skoðanir eru jafnvel um þessa niðurstöðu. Það er dálítið sérkennilegt að hlusta á það hvernig annars vegar talsmenn meiri hlutans lýsa því yfir að þeir standi að þessari þingsályktunartillögu eins og hún liggur fyrir og hins vegar koma líka fram mjög alvarlegar athugasemdir við það sem verið er að leggja til varðandi nýtingarflokkinn sjálfan.

Rétt eins og ég hef farið yfir í einhverjum andsvörum fyrr í dag eru skilaboðin sem við erum að fá í gegnum þessa þingsályktunartillögu í raun og veru mjög óljós þegar við lesum hana með nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Annars vegar gerðu upphaflegu tillögudrögin ráð fyrir allmörgum virkjunarkostum í formi vatnsaflsvirkjana. Það var síðan verkefni ráðherranna að tína út þessa virkjunarkosti, fækka þeim allnokkuð og setja inn í biðflokk, en að halda hins vegar að mestu leyti þeim virkjunarkostum sem voru inni í nýtingarflokki á háhitasvæðum. Þetta er auðvitað dálítið athyglisvert sjónarmið því að það sem þetta mun væntanlega þýða er að þetta kann að auka mögulegan þrýsting á hraðari nýtingu jarðvarmans. Vatnsaflsvirkjanirnar eru komnar í biðflokk í stórum stíl, og í raun ekki nema tveir kostir eftir. Annars vegar er það Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem er tiltölulega lítil virkjun, gæti verið mikilvæg en skorar ekkert allt of hátt þegar kemur að hagkvæmninni og verður væntanlega ekki ráðist í hana. A.m.k. ekki eins og menn eru með hugmyndir um nema ríkið komi þar til skjalanna með verulega fjármuni til að greiða tengigjöldin sem eru henni samfara. Það segir okkur að hún er auðvitað ekki eins hagkvæm og ýmsir aðrir virkjunarkostir, bæði sem við höfum þegar framkvæmt og eins aðrir virkjunarkostir sem annars hefðu verið í stöðunni hefði þeim ekki verið ýtt út úr tillögunni. Hins vegar er það áhugaverð virkjun, Blönduveituvirkjun eins og menn hafa kallað hana. Hún virðist vera rakin framkvæmd þegar kemur að hagkvæmninni. Hún er hins vegar ekki mjög stór kostur og mun auðvitað ekki velta stórri þúfu.

Þá er komið að hinum kostunum sem eru til reiðu í nýtingarflokknum. Það er auðvitað rétt sem hefur verið sagt hér að nýtingarflokkurinn er í sjálfu sér ekki ákvörðun um það að fara í framkvæmdir. Hann felur ekki í sér framkvæmdaleyfi, hann felur bara í sér að búið er, á grundvelli þeirrar vinnu sem verkefnisstjórnirnar hafa unnið, að raða inn í þennan nýtingarflokk sem gefur til kynna að það er minni fyrirstaða fyrir því að fara af stað með nýtingu ef öll önnur leyfi fást til þess. Þá þurfa menn auðvitað að fara í gegnum býsna þröngt nálarauga. Það er í fyrsta lagi umhverfismat sem þarf að fara fram engu að síður. Við höfum verið að styrkja þann lagalega ramma mjög mikið í gegnum tíðina þannig að möguleikarnir á því að fara af stað með virkjanir, hvort sem er á háhitasvæðum eða annars staðar, eða aðrar framkvæmdir, hafa þrengst mjög mikið frá því sem áður var. Ferlið er orðið miklu lengra, aðkoma miklu fleiri umsagnaraðila er núna tryggð, þannig að maður skyldi ætla að áður en farið yrði af stað í framkvæmdir af þessu taginu sé róið fyrir allar víkur og afleiðingarnar af framkvæmdunum skoðaðar.

Engu að síður er það svo að þegar við skoðum þetta er enginn vafi á að áhersla meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, og auðvitað ríkisstjórnarinnar sem lagði fram þessa þingsályktunartillögu á sínum tíma og hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir, er í rauninni á háhitasvæðin. Það er síðan dregið í land með dálítið sérkennilegum hætti í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, þar sem eru viðraðar mjög alvarlegar athugasemdir við fjöldamarga þætti sem tilheyra virkjunum á háhitasvæðum. Ég hef þegar nefnt þetta og ætla að ítreka þetta.

Það er sagt að efasemdir og áleitnar spurningar hafi vaknað um sjálfbærni orkuvinnslunnar. Þetta er ekkert smámál. Hér er verið að segja að það megi efast um og það megi spyrja áleitinna spurninga um hvort það að virkja á háhitasvæðum sé sjálfbær orkunýting, sem hefur verið ákveðinn grunnþáttur í orkustefnu okkar. Talað er um að mengun grunnvatns geti orðið af völdum skiljuvökva og affallsvatns, sem er auðvitað heilmikil ábending. Það er mikil athugasemd þar sem er í rauninni verið að segja að þetta geti til dæmis haft áhrif á neysluvatn okkar, ef menn fari ekki mjög varlega í þessum efnum.

Í þriðja lagi er vakin athygli á að þetta geti leitt til þess að loft mengist af völdum brennisteinsvetnis. Við þekkjum þessa umræðu. Hún hefur til dæmis komið fram í spurningunni um Bitru. Við þekkjum athugasemdir og áhyggjur íbúa í Hveragerði í þessum efnum. Sama máli gegnir um þær spurningar sem hér er vakið máls á og lýst efasemdum um. Hér er verið að nefna jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar. Með öðrum orðum: Það er verið að reisa gríðarlega alvarlegar athugasemdir við hugmyndina um nýtingu á háhitasvæðum yfir höfuð. Það er það sem er verið að segja. Þrátt fyrir að þessi háhitasvæði séu nánast einu virkjunarkostirnir sem komust, þrátt fyrir allt, inn í orkunýtingarflokk í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Skilaboðin eru mjög óljós.

Ég get ekki lesið annað út úr þessu en að það sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar er að senda okkur skilaboð um sé að það sé mjög hæpið að fara í nokkrar þær virkjunarframkvæmdir sem sé skipað í nýtingarflokk. Ég ítreka það.

Mér er ljóst að það að fara í nýtingarflokk er langt frá því að vera sjálfvirk ávísun á framkvæmdir, eins og ég hef þegar rakið. En það eru samt sem áður skilaboð, að setja þessar framkvæmdir í nýtingarflokk. Þess vegna vekur það margar spurningar þegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur sérstaka áherslu á allar þær neikvæðu afleiðingar sem kunna að vera af því að fara í framkvæmdir á háhitasvæðum miðað við þá þekkingu og tækni sem við höfum í dag og miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir um mögulega nýtingu til virkjana á þessum háhitasvæðum (Forseti hringir.) sem um getur í tillögunni og við höfum verið að ræða hér.