141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að biðja hv. þingmann afsökunar ef ég hef mismælt mig hér áðan og sagt að eitthvað færi í verndarflokk. Ég tel að það hafi verið rangt af ráðherrunum að fara að fikta í málinu vegna þess að með því var það gert að pólitísku plaggi.

Ég hef líka ákveðnar skoðanir á því sem kom út úr formannahópnum. Það skiptir ekki máli hver gerði hvað, skoðun mín er sú að jökulárnar í Skagafirði eigi að vera í nýtingarflokki.

Ég var búinn að sætta mig við að málin yrðu með þessum hætti, þ.e. eins og tillagan var. Ég get illa sætt mig við það og finnst afar slæmt að stjórnarflokkarnir hafi farið að fikta í málinu. Þess vegna segi ég að tillagan hafi verið gjaldfelld. Ætlunin var að sjálfsögðu að ná einhvers konar sátt um málið. Þegar farið var í þá vegferð var strax ljóst að erfitt yrði að ná sátt um málið þar sem einstakir pólitískir aðilar voru farnir að breyta hlutunum, ég orða það bara þannig.

Það kann vel að vera að það samræmist ekki lögum að einhverjir aðrir komi að þessu. Ég efast ekkert um að ráðherrarnir hafi haft fulla heimild til að gera þetta, það kemur fram, ef ég man rétt, hv. þingmaður getur annars leiðrétt mig. Ef ég man rétt kemur fram í lögunum að ráðherrar geta snurfusað málin, ef ég má orða það þannig, en ég held að í þessu tilviki hefði ekki átt að fara þá leið vegna mikilvægis þess að ná sátt um verkefnið. Þess vegna segi ég að það sé ekki mikils virði þegar búið er að eyðileggja sáttina.