141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Hvalárvirkjun virðist ljóst að hún er nánast eingöngu hagkvæm ef orkan er nýtt í hlaðinu og það má velta fyrir sér hvort raunhæft sé að horfa á það þannig. Ég held hins vegar að mestu verðmætin væru í því að ná að virkja þarna og dreifa orkunni á raforkukerfið svo að fyrirtæki og einstaklingar á Vestfjörðum byggju við öruggt rafmagn. Að sjálfsögðu væri það sem eftir stæði síðan selt til nýrra atvinnutækifæra sem yrðu þá byggð á þessu svæði. Það er alveg rétt að til að það megi verða þarf að styrkja allt flutningskerfið og gera þeim sem halda á virkjunarleyfinu kost á því að selja inn á raforkunetið og þar þarf ríkið að koma einhvern veginn á móti.

Hvers vegna virkjum við? Ég skil ekki þá spurningu sem kemur allt of oft upp. Ætlum við þá að segja að við séum einhvern veginn búin að núllstilla samfélagið? Það þurfi ekki að gera neitt meira er varðar orku? Við ætlum að byggja allt upp á atvinnuvegum sem þurfa ekki orkunýtingu? Það getur vel verið að það sé ákveðin stefna. Ég hef bara enga trú á því að Íslendingar muni nokkurn tímann láta selja sér slíkar hugmyndir, ég tel þær fráleitar. Að við nýtum ekki auðlindir landsins til þess að skapa verðmæti.

Við þurfum að sjálfsögðu að búa til verðmæti til að flytja út. Við þurfum að búa til störf sem framleiða vörur einhvern veginn, sem eru svo seldar erlendis og skapa okkur gjaldeyri. Með því borgum við að sjálfsögðu skatta og gjöld og allt slíkt og búum til verðmætagjaldið sem landið þarf svo á að halda. Ef það er þannig að menn sjá ekki mikilvægi þess að nýta þau tækifæri er ég ekki hissa á því að staðan á Íslandi sé eins og hún er í dag, eftir fjögur ár hjá þessum stjórnarflokkum sem virðist vera algjörlega fyrirmunað að sjá tækifærin. (Forseti hringir.)