141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lít nú svo á að ef fram heldur sem horfir og málið verður klárað hér, ekki sem niðurstaða faglegrar vinnu 14 ára samráðsferlis sem skila átti samstöðu til langs tíma, heldur þvert á móti sem pólitískt átakamál, verði í rauninni enginn bundinn af því. Þá sé það bara stefnuyfirlýsing þessarar ríkisstjórnar til kosninga og að stjórnarliðar sjálfir séu jafnvel ekki bundnir af því eftir kosningar. Mér hefur heyrst þeir sumir hverjir tala þannig. Ég leyfi mér að nefna hv. þm. Kristján L. Möller sem verið hefur mjög gagnrýninn á þetta plagg. Við vitum ekki almennilega hvort hann ætlar að samþykkja það eða ekki en það er alla vega ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en svo að hann muni ekki telja sig bundinn af því til langs tíma. Fyrir vikið skilur maður ekki alveg hverju menn ætla að ná fram með þessu, í stað þess að nota tækifærið og reyna að ná sátt til langs tíma, sátt byggðri á staðreyndum, byggðri á faglegri vinnu, svo ég noti nú enn og aftur þann ofnotaða frasa, og geta með því bundið ríkisstjórnir framtíðarinnar, hvernig sem þær verða skipaðar, og þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að ráðist verði í einhverjar virkjanir sem ganga um of á náttúrugæði. Ég botna bara ekkert í því að menn kasti því tækifæri á glæ. En það er svo margt í málflutningi og stefnu þessarar ríkisstjórnar sem maður botnar ekkert í.

Eins og hv. þingmaður nefndi í andsvari er enginn skortur á því að við fáum að heyra frá útlendingum hvers lags fyrirmyndarland Ísland sé í orkumálum. Maður hefur nú setið ófáa fundi til dæmis með fulltrúum Evrópusambandsins þar sem fulltrúar þessarar ríkisstjórnar kynna orkumál sem eitt af stórum framlögum Íslands til Evrópu (Forseti hringir.) á meðan þeir tala hér innan lands eins og það sé allt hið versta mál.