141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir góða ræðu þar sem hún kom inn á margt mikilvægt í þessari umræðu allri. Það sem mér finnst sárast, og ég heyrði að þungt var í þingmanninum þegar kom að því, er hvernig vinstri flokkarnir, stjórnarflokkarnir, hafa spillt því ferli sem hefur verið í gangi í að minnsta kosti 13 ár. Sumir vilja rekja ferlið allt aftur til 1993, eins og hv. þingmaður gerði í rauninni í ræðu sinni, þegar málið var sett í ákveðinn sáttafarveg, tekið úr átakafarvegi, m.a. til þess að skuldbinda alla flokka því að við vitum að allir flokkar og þingmenn innan þeirra hafa mismunandi skoðanir á hinum ýmsu virkjunarkostum. Þetta var gert til að láta ábyrgð okkar verða meiri þannig að við gætum skuldbundið okkur til lengri tíma, ekki bara til skemmri tíma.

Ég tek því undir með hv. þingmanni að það er algjörlega ólíðandi hvernig ríkisstjórnin hefur beitt sér í þessu verkefni, sundrað og splundrað ferlinu öllu. En það kemur svo sem ekki á óvart að ríkisstjórnin skuli velja þá leið. Við sjáum þetta í hverju málinu á fætur öðru, eins og hv. þingmaður rakti og nefndi fiskveiðistjórnarmálið, svo ekki sé minnst á blessaða stjórnarskrána.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji sig vera bundna þeirri tillögu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sett fram þegar hún kemur á þing að nýju eftir kosningar. Þetta er ekki tillaga verkefnisstjórnarinnar, þetta er ekki tillaga allra þingmanna eða þingflokka, þetta er tillaga vinstri stjórnarinnar. Telur hv. þingmaður sig vera bundna af þessari tillögu, þ.e. ef hún verður samþykkt einhvern tíma á vordögum, eða mun hún beita sér fyrir breytingum á tillögunni á nýju þingi?