141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja þetta: Þetta er svo sannarlega rammaáætlun vinstri ríkisstjórnar, eða við skulum frekar bara segja samstarfsflokks Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, Vinstri grænna.

Við höfum, eins og ég fór yfir í ræðu minni, frumvarp að stjórnarskrá Samfylkingarinnar í þinginu þannig að vinstri flokkarnir tóku svo sannarlega til starfa í þinginu og eru að merkja sér á ógeðfelldan hátt, að mínu mati, málefni sem samfélagssátt á að ríkja um. Stjórnarskráin er samfélagssáttmáli. Rammaáætlun er jafnmikill samfélagssáttmáli að mínu mati og stjórnarskráin á að vera. Við verðum að skapa frið úti í samfélaginu um hvað eigi að vera í nýtingarflokki, hvað í biðflokki og hvað friðlýst. Samkomulag þar um var komið áður en ríkisstjórnin komst með puttana í það og Vinstri grænir gerðu sína eigin rammaáætlun. Það var líka komin sátt í fiskveiðistjórnarmálinu undir forustu þáverandi þingmanns, Guðbjarts Hannessonar, en þá komust stjórnarflokkarnir í það og settu málið í uppnám. Það eru náttúrlega ólíðandi vinnubrögð að öllu leyti hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið á málum sem samfélagsleg sátt á að ríkja um.

Varðandi þá spurningu hvort það sé ekki fullmikil bjartsýni að baki tillögu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar og taka upp fyrra plagg — jú, það má vel vera, en tillagan er fyrst og fremst klár yfirlýsing um að ríkisstjórnin sé á rangri braut. Við erum að biðja hana kurteislega að endurskoða afstöðu sína með því að fara þessa leið.

Svo varðandi forskot okkar á heimsvísu, auðvitað töpum við forskotinu á allri þeirri þekkingu sem íslenskir fræðimenn búa (Forseti hringir.) yfir, bæði í vatnsafli og á háhitasvæðum, og vekur alla vega athygli nú.