141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við og ég vil taka undir það sem kom fram núna síðast að rammaáætlun er og á að vera samfélagssáttmáli. Eins og kom fram í ræðu hennar lítum við á 20 ára ferli sem lengst af hefur verið keyrt áfram undir forystu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, í ríkisstjórnartíð þeirra. Það sýnir vel að mínu mati vilja þeirra flokka til að reyna að leiða ágreininginn um þau mál í jörð, búa til stefnu sem getur staðið til lengri tíma þar sem er fetuð hin vandasama leið nýtingar og verndunar. Um það á þetta auðvitað að snúast.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Nú kemur fram í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar um virkjanir til ársins 2025 og efnahagsleg áhrif þeirra til ársins 2030, að þegar komið er fram á þennan tíma, eftir kannski 12–15 ár, geti það sem Landsvirkjun skilar í arð og tekjuskatt til íslenska ríkisins farið að skipta vel á annað hundrað milljarða. Það kemur einnig fram í skýrslu auðlindastefnunefndar um stefnumörkun í auðlindamálum, sem gefin var út fyrir skömmu, að það megi áætla að arðurinn geti orðið vel á annað hundrað milljarðar. Er sú stefna sem er keyrð áfram hérna, (Forseti hringir.) sérstaklega við þessar erfiðu aðstæður í okkar efnahagsmálum, ekki algert glapræði í ljósi þessa (Forseti hringir.) og jafnast nánast á við skemmdarverkastarfsemi, svo sterkt sé tekið til orða?