141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar um að hér sé verið að vinna skemmdarverk á íslensku samfélagi og ef ríkisstjórnin sér ekki hag sinn í því að innleysa 200 milljarða hagnað, af því að þessar virkjanir eru komnar svo vel af stað hjá Landsvirkjun, er náttúrlega eitthvað að. Eins og ég segi er verið að draga úr öllu atvinnulífi og ekki verið að búa skilyrði til atvinnusköpunar.

Ég hef farið yfir fiskveiðistjórnarkerfið og ferðaþjónustuna og nú er það þetta tækifæri hér. Ég veit raunverulega ekki á hvaða leið ríkisstjórnin er og svo er þessi sáttmáli settur í uppnám líka. Það er alveg óskiljanleg á hvaða leið ríkisstjórn er en ég minni á að við verðum að hafa þolinmæði í örfáar vikur í viðbót. Það eru að koma kosningar. Það er hægt að snúa við.

Rammaáætlun blandast kannski við hugsjón Vinstri grænna. Við vitum að þar eru mjög miklir umhverfisverndarsinnar sem vilja alls ekki sjá virkjanir, t.d. í neðri hluta Þjórsá þar sem er margviðurkennt að séu langhagkvæmustu virkjunarkostirnir. Það tekur mjög skamman tíma þangað til við erum farin að framleiða orku en eins og við munum var það á stefnuskrá Vinstri grænna að friða Þjórsá og voru mótmælastöður þar og hjá Urriðafossvirkjun.

Virðulegi forseti. Ég tel hreinlega að það sé fórnarkostnaður íslensku þjóðarinnar að ESB-umsókn Samfylkingarinnar. Samningurinn var að setja umhverfismál í forgang svo að búið er að taka suma hagkvæma virkjunarkosti út og setja í biðflokk og aðra í friðlýsingu. (Forseti hringir.) Svo sitjum við uppi með það. (Forseti hringir.)