141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hv. þingmanns. Það er stundum talað um það í þessari umræðu af þeim sem gagnrýna virkjunarframkvæmdir að við eigum ekki að vera að taka ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir. Að við getum ekki verið að ákveða þessa virkjunarröðun eða virkjunarframkvæmdir í dag vegna þess að komandi kynslóðir þurfi að hafa eitthvað um það að segja. Í mínum huga hefur það aldrei getað gengið upp af því að væntanlega og vonandi verða alltaf komandi kynslóðir í þessu landi. Ef við ætlum að vinna út frá þeirri reglu eða skoðun verða seint teknar einhverjar ákvarðanir langt inn í framtíðina, eins mikilvægt og það er að móta stefnu til lengri tíma.

Ég held að það mætti nú leiða að því líkum að ef við kæmum okkur saman um rammaáætlun, og síðan framkvæmdaáætlun á grunni hennar til 15–20 ára, gætu efnahagsleg áhrif af því orðið gífurleg og trúverðugleiki landsins og traust miklu meira. Menn sæju að í raun er þetta eins og að virkja olíuauðlindir, sé horft til lengri tíma mun það væntanlega gefa okkur miklu sterkari stöðu gagnvart lánardrottnum okkar og kjörum.

Mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess sjónarmiðs og eins annað: Í ljósi þessa djúpstæða ágreinings sem augljóslega er um þá útfærslu sem ríkisstjórnin hefur kosið að leggja fyrir þingið, er þá ekki rétt, og sjálfstæðismenn hafa flutt þá tillögu og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur einnig komið inn á það, að við tökum þetta til baka, endurvekjum gömlu verkefnisstjórnina og förum til baka í hina faglegu vinnu sem allir hafa í raun hrósað í umsögnum sínum? Það má segja að það sé (Forseti hringir.) þverpólitískt, að þeirri faglegu vinnu sé hrósað. Er ekki rétt að senda þetta til baka og fá afurðina þaðan (Forseti hringir.) flokkaða og ómengaða inn til þinglegrar umfjöllunar?

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann um að virða ræðutímann.)