141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa á bug hjali um að það skaði komandi kynslóðir ef auðlindir sem við þurfum til að halda þetta samkomulag eru á einhvern hátt nýttar. Við nýtum auðlindir á sjálfbæran máta hér á landi, eins og ég fór yfir í ræðu minni, brennum ekki kol, sköpum ekki mengunarhættu eða nokkurn hlut og erum með því að byggja grunn til framtíðar fyrir komandi kynslóðir.

Einu sinni voru ég og hv. þm. Jón Gunnarsson framtíðarkynslóð í þessu landi. Það var þegar var verið að virkja í fyrsta sinn og Íslendingar fengu rafmagn. Við verðum að hafa framþróun og framtíðarsýn við rekstur fyrirtækisins Íslands. Við getum ekki litið fram hjá því. Þetta er bara eins og hver annar fyrirtækjarekstur, að leggja inn til framtíðar á skynsaman máta til að byggja upp framtíð. Það er svo einfalt en er sýn sem vinstri menn virðast ekki hafa, þá vantar framtíðarsýn og það er miður.

Við þurfum ekkert að endurvekja gömlu verkefnisstjórnina, hennar niðurstaða liggur fyrir. Það er hægt að búa til fullkomið þingskjal á einni viku úr þeim tillögum sem þar liggja fyrir og setja það í sáttafarveg. Ég fór yfir að margir hafa komið að þessu, samtal við þjóðina hefur farið fram og þarna var kominn sáttagrundvöllur fyrir málið. Auðvitað eigum við að taka skjalið fram, gera úr því þingskjal, koma með það fyrir þingið og fá það samþykkt. Það er það sem við þurfum að byggja nýtingaráætlun okkar á. Í friði við náttúru og menn sem búa í þessu landi.