141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nú ánægjuefni að fá að taka til máls undir þessum lið enda er á ferð stórmerkilegt plagg sem ástæða er fyrir þingheim að ræða ítarlega, bæði á vettvangi þingnefnda og í þessum sal.

Það eru tvö atriði sem ég vil helst leggja áherslu á í ræðu minni. Það er í fyrsta lagi að sú gagnrýni hefur komið fram undanfarið að verið sé að víkja frá einhverju ákveðnu ferli og niðurstöðum faghópa með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á rammaáætlun, eins og þingsályktunin lítur út núna. Svo er hitt um þá framtíðarsýn sem ég hef á þessi mál í heild, virkjunar- og verndarmál.

Fyrst örlítið að hinu atriðinu. Það er ljóst, og öllum þingheimi á að vera það ljóst, að þegar gengið var frá lögum um rammaáætlun á þessu þingi árið 2011 var gengið frá því að umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra ættu að láta niðurstöður faghópa fara óbreyttar sem drög að þingsályktunartillögu til hópa í samfélaginu, umsagnaraðila, í svokallað lögbundið 12 vikna umsagnarferli. Það var öllum ljóst að frá upphafi ættu niðurstöður faghópanna að fara í 12 vikna umsagnarferli. Fyrst og fremst til að kanna þau rök sem færð voru fyrir röðun í flokkana, hvort þau stæðust þá gagnrýni, og svo hvort afla þyrfti nýrra upplýsinga eða bæta gagnagæði þannig að einhverjir þessara kosta ættu af þeim sökum heima í biðflokki en ekki orkunýtingarflokki eða verndarflokki.

Sem sagt. Hafa einhverjir þarna úti eitthvað um málið að segja? Viljið þið koma upplýsingum á framfæri við ráðherrana áður en þingsályktunartillagan verður lögð fram? Eru nýjar upplýsingar á sveimi sem vert er að taka tillit til? Niðurstaðan varð sú að sex kostir á tveimur svæðum fóru í biðflokk. Breytingin var nú ekki meiri en það. Sex kostir sem áður áttu að fara í orkunýtingarflokk voru settir í biðflokk. Hvers vegna? Jú, menn töldu að komið hefðu fram upplýsingar sem gæfu til kynna að rannsaka þyrfti málið betur. Það eru nú öll svikin.

Þær breytingar voru sem sagt gerðar til að færa virkjunarkosti úr orkunýtingarflokki í biðflokk og hefur þannig aldrei meiri áhrif á umhverfið heldur en hitt. Ég verð að taka undir með meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem hann segir í nefndaráliti sínu að varúðarsjónarmið búi þar að baki og unnið sé í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttar um að náttúran skuli njóta vafans.

Virðulegi forseti. Ég vil segja í því sambandi að ég tel miklu farsælli leið til sáttar í okkar samfélagi hvað snertir svona viðamikið og stórt mál, að stíga varlega til jarðar og láta náttúruna njóta vafans. Það var mat ráðherranna að komið hefðu fram gögn sem sýndu óhikað að það ætti að færa ákveðna kosti úr nýtingu í bið, hér er ekki verið að taka ákvörðun um hvort eigi að vernda eða nýta heldur einungis hitt: Hér eru komin fram gögn, við skulum setja hlutina í bið. Ég tel miklu farsælli leið til að ná sátt meðal þingheims og meðal samfélagsins alls að stíga varlega til jarðar og setja hlutina í bið á meðan upplýsinga og gagna er aflað og þess vegna er ég mjög ánægður með þá lendingu sem komist var að. Það vildi ég sagt hafa um þetta. Lögbundið ferli sem kvað á um þá skyldu ráðherranna að fara með málið í umsögn úti í samfélaginu, þar komu fram upplýsingar og gögn svo talið var skynsamlegt að færa sex kosti í bið. Það er miklu skynsamari leið heldur en að fara með málið fram í ósátt og í berhöggi við þær umsagnir sem hafa borist.

Virðulegi forseti. Ég vil segja að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða og orkusvæða er í raun og veru stórmerkilegt skref, að mér finnst, til að ná sátt í samfélagi okkar á milli þeirra tveggja póla sem hafa orðið til á undanförnum árum, milli þeirra annars vegar sem vilja virkja og hins vegar þeirra sem vilja vernda. Þannig hefur orðið umpólun í okkar samfélagi sem er miður vegna þess að ég tel að smátt og smátt, með tíð og tíma, hafi orðið breyting á og því þurfi ekki lengur að hafa þá póla í svo mikilli gagnrýni hvor á annan. Ég tel að umtalsverð sóknarfæri fyrir atvinnulífið felist í verndun umhverfisins og það vil ég rökstyðja með eftirfarandi hætti:

Ísland er í huga fólks land hreinna afurða og sérstæðrar náttúru. Það eru mikil verðmæti sem felast í þeirri ímynd og í þeim afurðum sem verða til í hreinni náttúru. Það er ljóst að íslensk útflutningsfyrirtæki nýta sér ímyndina við markaðssetningu og virðisaukningu á erlendum mörkuðum, þ.e. okkar verðmætustu fyrirtæki nýta sér hreina náttúru og þá ímynd sem hún skapar til að búa til verðmæti á erlendri grundu og bæta þjóðarhag. Þess vegna tel ég að umhverfis- og náttúruvernd séu, og vil að því leiða, mikilvæg til að styðja við hagvöxt, fjölgun starfa og verðmætasköpun á Ísland. Því vil ég segja að þeir sem vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun og uppbyggingu atvinnulífsins og hinir sem vilja veg umhverfisverndar sem mestan, eigi þess vegna að vera samherjar en ekki andstæðingar. Í atvinnulífi framtíðarinnar er verndun umhverfis og öflug uppbygging atvinnulífs ekki andstæðir pólar og því vil ég segja að hið nýja atvinnulíf kallar eftir nýjum áherslum í íslenskri umhverfispólitík.

Náttúran er okkur mikilvæg, ekki bara í ferðaþjónustu heldur líka í útflutningi. Hún skapar virði, verðmæti og störf og þá sérstaklega í hinu nýja nútímaatvinnulífi. Umhverfismál verða sífellt veigameiri þáttur í okkar samfélagi. Við sjáum öll, hvort sem það snertir innkaup á bílum, flokkun á rusli, eflingu almenningssamgangna eða hvar svo sem við lítum niður, að alls staðar eru umhverfismálin sífellt veigameiri þáttur í daglega lífi okkar. Ef við erum stödd þar í dag, hvernig verður það þá eftir 10–20 ár? Það gefur ekkert annað til kynna en að aukin verðmæti felist í því að gæta að umhverfinu, framleiða vörur sem eru til dæmis lífrænt ræktaðar, standast umhverfisprófanir og eru framleiddar í anda umhverfisverndar, ef svo mætti segja. Þess vegna verður þetta bara snjóbolti sem rennur niður hlíðina og verður sífellt öflugri.

Ef við viljum í raun og veru styðja vaxandi greinar, sem til dæmis McKinsey-skýrslan sagði okkur að hlúa sérstaklega að, og fyrirtæki sem selja vörur erlendis, hvort sem það eru gervifætur, tölvuþjónusta, fiskur, lambakjöt eða ferðir til Íslands, getum við ekki veitt þeim betri stuðning í sölu- og markaðsmálum en að gera Ísland að fyrirmyndarlandi á sviði náttúruverndar, hreinleika afurða, sjálfbærrar þróunar eða lífrænnar ræktunar. Ekki bara verða lífsgæði okkar betri hér á landi, heldur verður hægt að selja vörurnar á hærra verði. Það er ekkert annað en verðmæti, aukin störf. Umhverfismál verða þannig mikilvægustu atvinnu- og efnahagsmál nútíðar og framtíðar hér á landi og þar erum við Íslendingar í lykilstöðu.

Við eigum að hugsa grænt í dag og hvernig við ætlum að byggja upp atvinnulíf framtíðarinnar. Þar kemur græna áherslan til með að skapa okkur sífellt meiri verðmæti og þess vegna eigum við að stíga varlega til jarðar í því verkefni sem við tökumst á við núna og láta náttúruna njóta vafans. Það verður ekki aftur tekið ef við förum fram með virkjanir og röskum umhverfinu. Komi fram nýjar upplýsingar eigum við að segja: Tökum þennan valkost og setjum í bið og öflum okkur nýrra upplýsinga, hvort sem það er um lax, samspil við þjóðgarða eða hvað annað.

Í grænum áherslum felast sóknarfæri og við eigum að nýta þau. Mér finnst þessi rammaáætlun gera það og því fagna ég því ferli sem ég tel vera ferli sáttar vegna þess að ef við færum fram með þetta mál í andstöðu við nýjar upplýsingar sem hafa komið fram værum við að taka málið úr ferli sáttar.

Virðulegi forseti. Það er mín skoðun og því vil ég ljúka máli mínu hér. Takk.